Georg Müller, fyrrverandi biskup kaþólsku kirkjunnar í Þrándheimi í Noregi, hefur viðurkennt að hafa beitt ungan dreng kynferðislegu ofbeldi. Kaþólska kirkjan í Noregi staðfestir að þekkt séu þrjú önnur tilfelli þar sem prestar hafi níðst á börnum.
Müller biskup lét af embætti í fyrrasumar og var samstarfsörðugleikum borið við. Kirkjan hafði hins vegar þá komist að glæp biskupsins og hefur borgað fórnarlambinu um 500 þúsund norskar krónur í skaðabætur. Biskupinn er sagður hafa farið í skálræna meðferð og fengið andlega leiðsögn.
Bernt Eidsvig, núverandi biskup í Þrándheimi og Ósló, segir ekki vitað til að Müller hafi níðst á fleiri drengjum. Eidswig sagðist hinsvegar í viðtali við norska útvarpið vita um þrjú önnur mál tengd kaþólsku kirkjunni í Noregi.
Sérfræðingar telja nú að barnaníðingsmálin sem upp séu komin innan kaþólsku kirkjunnar séu aðeins toppurinn á ísjaka. Árið 2004 var birt skýrsla kaþólsku kirkjunnar í Bandaríkjunum þar sem sagði að 4000 prestar hafi beitt 10 þúsund börn kynferðislegu ofbeldi. Í Þýskalandi eru upplýsingar um 300 tilfelli og svipuð mál hafa verið opinberuð í Austurríki, Sviss, Hollandi, Írlandi og Danmörku. Ítalskur lögfræðingur segir sig þekkja til 130 tilfella á Ítalíu frá árinu 1999.
Biskupar sem hafa hylmt yfir með barnaníðingum innan kirkjunnar eru nú harðlega gagnrýndir. Í því samhengi má nefna að hollenski biskupinn Joannes Gijsen sem var biskup í Reykjavík 1996 til 2007 sagði af sér biskupsembætti í Hollandi 1993 skömmu eftir að upp komst um hneyksli í kaþólskum prestaskóla í Rolduc sem hann stofnaði. Þar komst upp um kynlífshneyksli og vændi. Aðal sökudólgurinn, prófessor við skólann, var fluttur um set í litla sókn í Austurríki.