Eygló Harðardóttir, fyrrverandi húsnæðismálaráðherra, ákvað að hlusta ekki á þá sem sögðu henni að það væri liðin tíð að það væri hægt að byggja sjálfur á Íslandi. Hún og maðurinn hennar, sem er framhaldsskólakennari, keyptu lóð í Mosfellsbæ árið 2016 og tóku fyrstu skóflustunguna að rúmlega 150 fermetra, íslenskum burstabæ árið 2017. Torfþakið verður klárað í sumar. Þau gerðu margt sjálf og færðu ýmsar fórnir fyrir drauminn, bjuggu um tíma í hjólhýsi á lóðinni og voru án sturtu í fimm mánuði.

„Þetta ferli er búið að vera afskaplega lærdómsríkt og skemmtilegt fyrir okkur en þvílíkt erfitt líka,“ segir Eygló sem nú er verkefnastýra nýs áfangaheimilis Kvennaathvarfsins og matreiðslunemi. 

Um 60 teikningar undirritaðar með sérstöku bleki

„Við ákváðum að prófa, fundum lóð í Mosfellsbænum, það var mesta úrvalið þar, tvö svona svokölluð hrunhverfi.  Við keyptum lóð í Leirvogstungunni og ég hélt sannarlega að þetta myndi ganga tiltölulega hratt fyrir sig. Það þurfti ekki að fara í neina deiliskipulagsbreytingu eða slíkt. Það tók síðan níu mánuði að hanna húsið, ég sjálf hafði vanmetið alla þá vinnu sem liggur á bak við hönnunina. Á endanum held ég að við höfum skilað inn 60 teikningum og ég veit ekki hvort það er búið að breyta því en það var þannig að það þurfti að skila þessu á pappírsformi og hönnuðirnir þurftu að skrifa undir með ákveðinni tegund af bleki.“

Reyndu aðeins á þolrif meistaranna

Í aðdraganda framkvæmdanna settust Eygló og eiginmaðurinn á skólabekk, tóku nokkra kúrsa í húsasmíði í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti. Hún mælir líka eindregið með Youtube. Þar sé hægt að finna nær allar leiðbeiningar um hvernig eigi að byggja sjálfur. 

Hjónin gerðu margt sjálf undir handleiðslu sérfræðinga. Eygló segir þó að núverandi lagaumhverfi styðji ekki endilega að fólk taki málin eigin hendur. Þau hafi þannig reynt svolítið á þolrif byggingastjórans og iðnmeistaranna sem bera ábyrgð á því að allt sé vel úr garði gert.

Minni meistaraskylda í nágrannalöndum

Frændur okkar og frænkur í nágrannalöndum mega gera meira sjálf. Hafsteinn Pálsson, verkfræðingur í umhverfisráðuneytinu, segir í samtali við Spegilinn að hér sé meiri meistaraskylda en í sumum Norðurlandanna. Jón Guðmundsson, sviðsstjóri hjá Mannvirkjastofnun, segir að þar sé annað stjórnkerfi sem ekki sé alveg sambærilegt því íslenska, það þurfi að varast að bera saman epli og appelsínur. Ekki sé gerð krafa um að löggiltur hönnuður teikni húsið eða að fagmenn komi að byggingu þess en samt séu gerðar kröfur til húsnæðisins og óreynt fólk sem hyggst smíða sér hús gæti þurft að greiða meira fyrir tryggingar en fólk sem lætur fagmenn um verkið. 

Næturvinna og steypumótastress

Eygló segir að útivinnan hafi stundum getið af sér margra daga harðsperrur og vinnuskorpur reynt á andlega. „Þegar við vorum að leggja lokahönd á steypumótin fyrir sökkulinn vorum við að vinna til fjögur um nóttina. Steypubíllinn átti að koma um klukkan átta um morguninn, við vorum fremst í röðinni. Húsasmíðameistarinn okkar var búinn að tala um að koma og aðstoða okkur við að setja steypuna í mótin. Við sáum fram á það klukkan fjögur að við myndum ekki ná þessu, alveg úrvinda, fórum heim grétum nánast smá, lögðum okkur í klukkutíma á meðan við biðum eftir að meistarinn vaknaði. Við hringdum í hann og sögðum honum frá þessum ósköpum, að við hefðum ekki náð að klára. Hann róaði okkur, sagði okkur að slaka á og sofa aðeins lengur, við fengjum að fara aftast í röðina. Steypubíllinn kom svo um fimm leytið síðdegis og akkúrat þegar hann var að renna í hlaðið vorum við að negla síðustu naglana í mótin. Það sprakk ekkert sem var meiriháttar áfangi og virkilega skemmtilegt. 

Hún segir að það sé góð tilfinning að átta sig á því að maður geti margt sjálfur. Samfélagið hafi breyst, margir fari í bóknám, og hugsanlega hafi margir tapað skilningnum og virðingunni fyrir því hversu stórt verk það er að byggja hús. Þá hafi fólk kannski misst trúna á að það geti byggt sjálft. 

Eimi eftir af 2007 hugsun í skipulagi

Fleira tók á við framkvæmdirnar. Eygló nefnir hindranir tengdar reglugerðum og deiliskipulagi. „Ýmsar af þeim hugmyndum sem við vorum með reyndust ekki mögulegar. Eitt af því sem við hefðum gjarnan vilja gera er svipað því sem var gert í Smáíbúðahverfinu, þá mátti byrja á því að byggja 50 fermetra og svo hafðirðu möguleika á því að stækka við þig, gera þetta í áföngum. Skipulagið í okkar hverfi heimilaði þetta ekki, það varð að byggja að lágmarki 150 fermetra einbýlishús.“

Hún segir að þarna eimi eftir af 2007 hugsunarhætti, allt eigi að vera svo stórt og flott og á endanum eigi stór hluti þjóðarinnar ekki efni á að byggja. 

Í húsinu eru tvær íbúðir og hægt að gera þá þriðju. Eygló býr ásamt fjölskyldu sinni í einni en með þeim í húsinu búa móðir hennar og bróðir. Hún er hrifin af hugmyndafræði sem gerir ráð fyrir að kynslóðir búi saman og segir auðvelt að skreppa í kaffi. 

Kerfið geri ekki ráð fyrir að einstaklingar byggi

Eygló segir að fjármögnun geti verið ákveðinn þröskuldur. Bankinn geri ekki ráð fyrir því að byggt sé í áföngum á löngu tímabili. Hann láni ekki fyrir þriðjungi af húsi heldur heilu húsi. Það þurfi að byggja hratt og fá mikið fé strax. Þegar smáíbúðahverfið reis hafi verið skortur á fjármagni og byggingarefni, það útskýri kannski hvers vegna fólki hafi verið leyft að byggja hægar en nú er leyfilegt. Fólk fái ekki lengur fimm til tíu ár til að klára húsið og aðkoma þess að byggingaferlinu einskorðist oft við að velja gólfefni eða eldhúsinnréttingu. Kerfið geri í raun ráð fyrir því að verktakafyrirtæki byggi hús, ekki einstaklingar. „Það var eitthvað sem við fundum í gegnum allt ferlið, menn voru mjög óvanir því að vera að fást við einstaklinginn sjálfan, sem er að byggja. Það var líka heilmikill lærdómur því það er ekki hægt að finna upplýsingar á þessum síðum, hvorki hjá bönkunum né hjá Íbúðalánasjóði, um hvernig þú stendur að því að fjármagna sjálfur byggingu á húsi.“

Fokheldi timburs og fokheldi steypu

Eygló segir að það hafi verið stór áfangi að ná fokheldi því þá hafi þau getað fengið lægri vexti á bankalánið fyrir húsinu. Reglugerðin mismuni í raun steinhúsum og timburhúsum. Þannig hafi steinhúsið við hliðina talist fokhelt þó það væru engar hurðir, plast í gluggum og enginn hiti. Timburhúsið þeirra hafi verið komið með hita, rafmagn og salernisaðstöðu, þau hafi búið í því en samt ekki getað fengið fokheldisvottorð.

Í sturtu í sundlauginni í fimm mánuði

Það er húsnæðisskortur. Fjölmargir fastir á leigumarkaði eða í foreldrahúsum. Geta allir sem hafa áhuga ráðist í að byggja sitt eigið hús að því gefnu að það fáist lóðir? Er svokallað selvbyggeri raunhæfur möguleiki fyrir aðra en efnafólk? „Áherslan á að vera á að vera með sem mesta fjölbreytni, við eigum að gefa fólk kost á að velja. Ég get ekki sagt að við maðurinn minn séum forrík, ég hef lækkað verulega í tekjum eftir að ég hætti á þingi. Við erum að gera þetta en á móti sleppum við ýmsu öðru. Við erum ekki að fara í utanlandsferðir, erum að spara við okkur í nánast öllu, keyrum um á fimmtán ára gömlum bíl. Við erum bara að forgangsraða í þágu þess að klára að byggja þetta hús því þetta er ákveðinn draumur.“

Velur eitt, fórnar öðru

„Ég held það sé líka eitt af því sem maður hefur séð, til dæmis í þessari umfjöllun hjá þér. Þar er fólk að fórna einhverju. Það er að velja ákveðna hluti og það færir því gleði en um leið velur það í burt eitthvað annað. Ef þú velur lítið smáhýsi ertu að velja burt rými en ert á móti kannski með meira fjárhagslegt frelsi. Ef þú býrð í skútu geturðu farið í heimsreisu en ert með minna pláss. Við erum að velja að gera þetta með þessum hætti innan þess lagaramma sem er til staðar hér, við segjum stundum að við séum á fimm ára plani. Þegar við loksins fluttum út úr íbúðinni sem við vorum að leigja vorum við í hjólhýsi fyrir utan húsið okkar í nokkrar vikur. Í fimm mánuði nýttum við sturtuna í sundlauginni í næsta nágrenni því við vorum ekki búin að ganga frá sturtu, það var mjög notalegt að mæta á hverjum morgni í sund, yndislegt starfsfólk líka. Við erum síðan að gera þetta kannski með sambærilegum hætti eins og einn sem þú varst að tala við. Hann ráðstafar fimmtíu þúsund kalli á mánuði í efni, við spyrjum hvað fáum við margar gifsplötur fyrir þennan fimmtíu þúsund kall. VIð höfum þá ekki tíma í annað, við förum sjaldan út að borða eða í bíó því þetta er það sem við höfum valið að gera í dag.“ 

Er hægt að breyta einhverju?

Eygló nefnir ýmislegt sem getur gert það að byggja erfiðara og dýrara: Dýrar og fáar lóðir, kvaðir um útlit og stærð húss í deiliskipulagi, kröfur um að hús séu byggð hratt upp, viðmið um fokheldi, hugsanlega tregðu meistara til að leyfa óiðnmenntuðum húsbyggjendum að sinna mikilvægum verkum og skort á upplýsingum. En telur hún hægt að breyta reglum án þess að fórna gæðum, öryggi og réttindum fatlaðra? Eygló vill að reglum verði breytt þannig að fólk geti verið sinn eigin byggingastjóri og tekið fulla ábyrgð á húsbyggingunni, þá finnst henni mikilvægt að gera fólki kleift að byggja í áföngum. „Nú er búið að færa mannvirkjastofnun frá umhverfisráðuneytinu og undir félagsmálaráðuneytið, ég myndi gjarnan vilja sjá að menn myndu þá kíkja aftur á byggingareglugerðina, hvort það væri hægt að setja inn sérkafla um selvbyggeri. Því að byggja sjálfur. Ég myndi vilja sjá upplýsingar um hvernig þú átt að fjármagna húsnæði sem þú ætlar að byggja sjálfur á vefsíðum banka og íbúðalánasjóðs, að við sæum líka bara í auknum mæli leiðbeiningar um hvernig það ferli að byggja hús er.“

 

Segir breytingar á reglugerð sjaldan kostnaðarmetnar

Eygló segir að ekki megi vanmeta verðmætin sem felast í kunnáttu iðnmeistara og byggingastjóra en telur að breytingar sem gerðar voru á byggingareglugerðinni árið 2012 hafi ekki verið kostnaðarmetnar, það gildi raunar almennt um breytingar á lögum og reglugerðum sem snúi að mannvirkjum og skipulagi, sjaldan sé lagt mat á þau áhrif sem þær hafi á húsnæðiskostnað. Samtök iðnaðarins hafi bent á að kröfurnar sem voru innleiddar 2012 hafi leitt til tugi prósenta hækkana á kostnaði við byggingu húsnæðis. Nú hafi margar þeirra verið teknar út aftur. 

Hvetur stjórnvöld til að vera opnari

Eygló segir jákvætt að Reykjavíkurborg viðurkenni í nýju hverfisskipulagi fyrir Árbæ að víða sé búið í bílskúrum og gefi íbúum heimild til að breyta þeim í fullgildar íbúðir. Þá segir hún að í Bretlandi sé ekki óheimilt að búa í atvinnuhúsnæði heldur frekar horft til gæða húsnæðis. Hvað varðar búsetu í frístundabyggð, bendir hún á að það séu sveitarfélögin sem hafi lagst gegn því. Sveitarfélög hafi mikið um það að segja hvað fólk megi og megi ekki gera. Þau gætu að mati Eyglóar útvegað fjölbreyttari lóðir. „Ég vil bara hvetja þá sem eru að taka ákvarðanir á sveitarstjórnarstigi eða hjá ríkinu til þess að vera svolítið opnari, það er engin ein lausn sem virkar fyrir alla, heldur að gefa fólki frelsi og það felst bara mjög mikil hamingja í því að fá að velja.“ 

Færri horn á næsta húsi

En hvernig kemur það út kostnaðarlega að byggja sitt eigið? Er það ódýrara en að kaupa? Eygló segir það eiga eftir að koma í ljós. „Við höfum allavega svo sannarlega séð það að ef við gerum þetta í annað sinn munum við geta fundið hagkvæmari leiðir og þetta mun kosta minna, eitt sem við höfum lært er að vera með færri horn á húsinu því hvert horn kostar,“ segir Eygló Harðardóttir, fyrrum húsnæðismálaráðherra og núverandi húsbyggjandi.