Fylgi breska Íhaldsflokksins minnkar

30.04.2017 - 17:48
epa05421417 British Home Secretary Theresa May waves on her arrival at Number 10 Downing Street to attend the last Cabinet Meeting hosted by British Prime Minister David Cameron in Westminster, central London, Enngland,12 July 2016. British Prime Minister
 Mynd: EPA
Fylgi Íhaldsflokksins í Bretlandi minnkar þessa dagana, en eykst hjá Verkamannaflokknum. Þetta sýna tvær skoðanakannanir sem breskir fjölmiðlar birta í dag. Theresa May forsætisráðherra neitar því að „vera í öðru sólkerfi“ í viðræðum við Evrópusambandið um Brexit.

Boðaði óvænt til kosninga

Theresa May tilkynnti óvænt í síðustu viku að hún hefði ákveðið að kosið yrði til þings í Bretlandi 8. júní næstkomandi til að hún fengi skýrt umboð til að semja um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Íhaldsflokkurinn nýtur mikils fylgis um þessar mundir, en tvær skoðanakannanir sem birtast í dag sýna að fylgið er farið að dala. Í Sunday Times mælist flokkurinn með 44 prósenta fylgi, fjórum prósentustigum minna en í síðustu könnun blaðsins. Verkamannaflokkurinn sækir í sig veðrið. Fylgið við hann er 31 prósent og hefur aukist um sex prósentustig síðan síðast. Verkamannaflokkurinn er einnig með 31 prósent í könnun Sunday Telegraph og þar mælist Íhaldsflokkurinn með 42 prósent.

Samningaviðræður ekki hafnar

Theresa May vísaði því á bug í dag í viðtali við BBC að hún væri „stödd í annarri stjörnuþoku“ í viðræðum við Evrópusambandið um útgöngu Breta, - hið svonefnda Brexit. - Þar vísaði hún til þess sem fram kemur í Sunday Times að Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hafi sagt við Angelu Merkel Þýskalandskanslara um afstöðu May til samnings um útgönguna. Í viðtalinu við BBC segir Theresa May að hinar eiginlegu samningaviðræður séu enn ekki hafnar. Hún kveðst ekki vera tilbúin að greiða ESB háar fjárhæðir fyrir útgönguna áður en gengið verði frá ákveðnum forgangsmálum. Þá ítrekar hún fyrri yfirlýsingu sína um að enginn samningur við ESB sé betri en vondur samningur.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV