Það er stórkostlegt dómgreindarleysi að ætlast til að íbúar tíni sjálfir upp skólpúrgang í fjörunni við Ægisíðu, segir Vesturbæingur sem ofbýður sóðaskapurinn. Upplýsingafulltrúi Veitna hvatti Vesturbæinga á samfélagsmiðlum í dag til að fara út að plokka. Lendingin varð hins vegar sú að hópur starfsmanna Veitna tíndi upp rusl.
„Ég kom hérna í gær að ganga með hundinn minn. Mér blöskraði þetta sem ég sá. Þetta er greinilega búið að vera í svolítið langan tíma en maður hefur ekki tekið eftir þessu, þetta hefur verið undir snjó. Maður er búinn að vera að ganga með hundinn hérna í einhverjar vikur kannski. Hundurinn gengur síðan inn í híbýli manns og traðkar þetta inn. Þetta er bara klósettpappír og alls konar úrgangur, skólp, sem hefur farið niður í klósettin. Við sem nýtum þetta svæði okkur til yndisauka, ofbýður að þetta skuli ekki hafa verið hreinsað upp,“ segir Alda Sigmundsdóttir, íbúi í Vesturbæ Reykjavíkur. Fleiri Vesturbæingar sem fréttastofa tók tali í dag tóku undir þetta.
Alda birti í gær nokkrar myndir á Facebook í hópi fyrir Vesturbæinga, af rusli úr skólpinu. Seinna sama dag birti upplýsingafulltrúi Veitna færslu, þar sem hann vitnar til skrifa Öldu og segir: „Við ætlum að plokka klukkan sautján á morgun. Öll velkomin! (verð að láta fylgja að klósettið er ekki ruslafata ; -) “
„Eins og allir vita var skólpinu dælt út úr þessari dælustöð í margar vikur í vetur án þess að Veitur sæju ástæðu til þess að upplýsa almenning um það. Mér finnst það bara stórkostlegt dómgreindarleysi að ætlast til þess að almenningur, sem er búið að skíta yfir í þessu máli, eigi að fara að koma út og fara að hreinsa þetta og gera þetta að einhverjum viðburði á sunnudag,“ segir Alda.
Starfsmenn Veitna fóru um miðjan dag og tíndu upp skólprusl. „Þetta er á okkar ábyrgð og þess vegna erum við að þessu. Við fréttum af þessu í gær en við reynum að bregðast eins skjótt við og við mögulega getum,“ segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Veitna ohf.