Fullveldishugtakið er sveigjanlegt hugtak sem verður að þróast í takt við samfélagið, segir Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði. Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í lögfræði, rifjaði upp að í baráttunni fyrir fullveldi hefðu Íslendingar oft líkt því við fullveðja einstakling. Það hefði verið til að átta sig á inntaki þess, hvort það væri að geta tekið eigin ákvarðanir eða standa einn og sjálfur.

Fullveldið, þróun þess og inntak, var til umræðu á Morgunvaktinni á Rás 1 af tilefni hundrað ára fullveldisafmælis Íslands.

Guðmundur Hálfdanarson sagnfræðiprófessor rifjaði upp að tveir þingmenn hefðu greitt atkvæði gegn sambandslagasamningum við Dani, vegna ákvæðis um að ríkisborgarar beggja landa væru jafnréttháir í þeim báðum. „Þetta var að mörgu leyti svipuð umræða og þegar EES-samningurinn var samþykktur, þá óttuðust menn líka það að þetta frjálsa flæði fólks myndi þýða það að hér myndi velta yfir okkur fjöldi útlendinga. Í hvorugt skiptið reyndist það vera rétt.“

Hann sagði fullveldishugtakið vera mjög sveigjanlegt. „Þá þarf að aðlaga þetta fullveldishugtak að þessum nýja veruleika. Ef við ætlum að taka einhverja vitræna umræðu um stöðu fullveldisins í nútímanum verðum við að einhvern veginn að skilja hvað þetta hugtak merkir, ekki bara slá því fram.“

Fullveldi og fullveðja einstaklingur

Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í lögfræði, sagði að á upphafsárum síðustu aldar hefðu menn oft notað fullveðja í stað fullveldis og líkt við fullorðinn einstakling. „Fullorðinn einstaklingur er kannski ekkert minna fullorðinn og ekkert minna sjálfstæður þó hann skuldi bankanum hálfa íbúðina sína, sé giftur og sé í vinnusambandi við sinn vinnustað. Þetta var líkingin sem menn tóku og sem að menn notuðu til að ræða. Hvað felst í þessu: Felst í þessu að geta ákveðið allt þetta eða felst í þessu að standa einn og sjálfur?“

Fullveldisdagurinn 1. desember 1918 skipar mun minni sess nú en hann gerði framan af síðustu öld. Ragnhildur sagði afstöðu manna ráðast af því af hvaða sjónarhóli þeir litu atburðina. „Þá skipta menn auðvitað um skoðun eftir því hvar þeir standa í sögunni. Þannig að bæði rétt fyrir og fram undir 1930 þá litu menn svo á að fullveldið væri stóri sigurinn því þeir stóðu þar í sögunni alveg eins og rétt eftir miðja síðustu öld þá litu menn svo á að lýðveldið væri stóri sigurinn, enda stóðu þeir þar.“

Hún sagði að 1908 og 1918 hefði komið fram tillaga um að Íslendingar lýstu yfir sjálfstæði en að menn hefðu þá talið fullveldið eftirsóknarverðara, þar sem það hugtak væri skýrara en hið pólitíska hugtak um sjálfstæði. Ragnhildur sagði að afstaða Íslendinga til innbyrðis sambands hugtakanna fullveldis og sjálfstæðis hefði breyst einhvern tímann á þeim tíma sem Ísland var konungsríki, frá 1918. Eftir að fullveldi var náð hefðu menn farið að hugsa um sjálfstæði.

Höfðu ekki áhuga á utanríkismálum

„Íslendingar voru sjálfstæð þjóð 1918 sama hvernig menn litu á sig,“ sagði Guðmundur. Íslendingar hefðu orðið konungsríki, að vísu með dönskum konungi, en að vald konungs hefði verið mjög takmarkað á Íslandi rétt eins og í Danmörku. „Vissulega voru ákveðnir þættir í ríkisvaldinu sameiginlegir, það er þá meðferð utanríkismála en það er bara meðferðin. Það er alveg ljóst af samningnum að Íslendingar geta rekið sína eigin utanríkisstefnu og gerðu það að vissu marki. En Íslendingar höfðu afskaplega lítinn áhuga á utanríkismálum. Þeir höfðu áhuga á að selja fisk og utanríkisverslun, þeir höfðu mikinn áhuga á því,“ sagði Guðmundur. Íslendingum hefði til dæmis verið boðið að taka þátt í Þjóðabandalaginu en ekki haft áhuga á því og að auki þótt það of dýrt.