Brasilísk yfirvöld hafa fryst eignir námufyrirtækisins Vale sem á stífluna sem brast í suðausturhluta landsins á föstudag. Fyrirtækinu hefur einnig verið gert að greiða sekt, sem samsvarar 92,5 milljónum Bandaríkjadala, að jafnvirði um 11 milljarða íslenskra króna, vegna hamfaranna.

Vale er eitt stærsta námufyrirtæki í heimi, að því er AFP fréttastofan greinir frá, og var í hópi eigenda stíflu í Brasilíu sem brast árið 2015. Þá fórust 19 manns.

Minnst 37 hafa nú fundist látnir í aurflóðinu sem reið yfir námubyggð og landbúnaðarsvæði og um 300 manns er saknað. Ólíklegt þykir að fólk finnist á lífi. Flóðið varð þegar stífluveggur brast og uppistöðulón, fullt af vatni og námuúrgangi flæddi fram. Snemma í morgun var svo gefin út viðvörun um hátt vatnsborð í öðru samskonar lóni í nágrenninu; viðvörun sem leiddi til þess að íbúar nálægt því lóni þurftu að yfirgefa heimili sín.