Alþingi samþykkti í dag frumvarp um breytingar á hjúskaparlögum. 49 þingmenn samþykktu frumvarpið, enginn greiddi atkvæði gegn því. Með frumvarpinu er lagt til að í stað þess að gildandi hjúskaparlög gildi eingöngu um hjúskap karls og konu gildi lögin um hjúskap tveggja einstaklinga.

Jafnframt er lagt til að lög um staðfesta samvist verði felld úr gildi. Þingmenn fögnuðu samþykkt frumvarpsins og sögðu um gleðidag að ræða. Sérstök gleðitíðindi væru það fyrir allt baráttufólk fyrir mannréttindum og réttindum samkynhneigðra.

Ragna Árnadóttir dóms- og mannréttindaráðherra mælti fyrir frumvarpinu í mars. Markmið þess er að afmá þann mismun sem felst í mismunandi löggjöf vegna hjúskapar karls og konu annars vegar og staðfestrar samvistar tveggja einstaklinga af sama kyni hins vegar. Sjálfstæðismenn lögðu fram tvær breytingartillögur sem ekki voru samþykktar um það meðal annars að vígslumönnum trúfélaga yrði heimilt að synja hjónaefnum um vígslu ef það stríddi gegn trúarlegri sannfæringu þeirra.

Þjóðkirkjan mun einnig samþykkja ein hjúskaparlög segir Einar Sigurbjörnsson, guðfræðiprófessor. Hann er meðlimur kenningarnefndar, sem hefur farið með málið á vegum kirkjunnar. Nefndin hefur ekki formlega skilað niðurstöðu en Einar segir að Þjóðkirkjan muni ekki standa í vegi fyrir slíkum breytingum. Þeir prestar sem séu andvígir lögunum munu þó eiga kost á að neita að gifta samkynhneigða, ef trúarsannfæring þeirra segi svo. Þannig verði farinn millivegur milli þeirra andstæðu sjónarhorna sem ríki innan kirkjunnar.

Lögin taka gildi 27. júní næstkomandi á alþjóðlegum mannréttindabaráttudegi samkynhneigðra.

Hér má hlusta á frétt um málið.