Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir að það skipti ekki öllu hvort frumvarp um veggjöld komi fram í mars, apríl eða maí. Það sé mest um vert að ná utan um málaflokkinn. Hann segir að aldrei hafi meira fjármagn verið sett í samgönguáætlun, sem sé fullfjármögnuð til næstu fimm ára.

„Við erum núna að skoða hvaða leiðir séu bestar við fjármögnunina og útilokum ekki að það sé hægt að fara einhverjar aðrar leiðir. Við höfum aldrei sett eins mikið fjármagn í samgönguáætlun. Á næstu fimm árum, fullfjármagnaðri áætlun, fara 50 milljarðar, tíu milljarðar á ári í viðhald, og einir 60 milljarðar í framkvæmdir. Engu síður var það ákall þeirra sem komu fyrir nefndina að það þyrfti meira til,“ sagði Sigurður Ingi í kvöldfréttum í sjónvarpi.

Sigurður Ingi segir að unnið sé áfram að málinu. „Niðurstaðan gæti orðið að það komi þetta frumvarp sem ég var með á þingmálaskrá. Mars, apríl, maí. Það mun ekki breyta öllu. Síðan stefnum við að því að vera með nýja samgönguáætlun í haust þar sem við erum búin að raða þessu öllu upp.“

Sigurður Ingi segir að veggjöld séu ein leið ef fólk vill fara hraðar í framkvæmdum við vegakerfið, í þágu umferðaröryggis. Þó sé verið að skoða allar leiðir. Hann segir ólíklegt að veggjöld verði innheimt í öllum göngum. Sum göng séu ekki boðleg í nútímanum og fáir sem fari um svo það tæki því ekki að rukka. „Tökum sem dæmi Hvalfjarðargöngin, þar sem kostnaður er 300 milljónir króna í viðhald til að halda sama öryggisstigi, í umframkostnað.“