Í upphafi árs hóf fyrirtækið Livio að bjóða konum meðferð þar sem egg eru sótt og fryst til geymslu. Þessi meðferð er meðal þess sem talið er hafa aukið frelsi fólks til að stjórna tímasetningu barneigna. Um nær allan heim hefur það sífellt orðið algengara að konur fresti barneignum en það er ekki sjálfkrafa trygging fyrir því að úr verði barn að geyma egg.

Þórir Harðarson, klínískur fósturfræðingur Livio, segir að frá því að fyrirtækið tók að bjóða þetta í byrjun árs hafi á milli tíu og tuttugu konur komið til þeirra af ýmsum ástæðum. Um helmingur þeirra eru konur sem eru að fara í krabbameinsmeðferð og vilja koma eggfrumum í skjól og um það bil helmingur konur sem hafa ekki fundið réttan maka og vilja koma eggjunum í frystinn eins og hann orðar það; á ensku er það kallað social freezing.

Heimturnar litlar

Fyrir nokkrum árum vakti það mikla athygli þegar bandarísk kona, Brigitte Adams, varð táknmynd þess að með því að frysta egg gætu konur öðlast frelsi. Freeze your eggs, free your career var yfirskrift forsíðumyndar hjá  viðskiptatímaritinu Bloomberg Business Week. Adams lét frysta úr sér ellefu egg þegar hún var hátt á fertugsaldri. Nokkrum árum síðar, þegar hún var hálffimmtug, ákvað hún að eignast barn með sæðisgjöf. En það gekk ekki eftir, tvö eggja Adams eyðilögðust þegar þau þiðnuðu, þrjú tókst ekki að frjóvga og af sex fósturvísum voru fimm ekki taldir lífvænlegir. Þá var einn eftir en náði ekki festu. Reyndar eignaðist Adams barn í ár með gjafaeggi og sæði en saga hennar sýnir svo ekki verður um villst að það að eiga egg tryggir ekki að úr verði barn. 

Frysting tryggir ekki að úr verði barn

Þórir segir að konum sé bent á að ekki sé tryggt að eggin lifi af og hitt sé að ekki sé nóg að leggja upp með bara fimm til tíu egg. Það þurfi allt að þrjátíu egg til að eiga raunhæfa möguleika á að úr verði barn en samt sé engin trygging fyrir því að meðferðin heppnist. Hægt er að taka um 10-15 við eggheimtu eftir hormónagjöf. Eggin eru viðkvæmari en til dæmis fósturvísar, sem fræðilega væri hægt að geyma í óratíma þó að samkvæmt reglugerð sé hámarksgeymslutími bæði kynfruma og fósturvísa tíu ár. Þórir segir að málið sé flókið, konur sem komi hátt á fertugsaldri séu í raun orðnar svolítið gamlar og á þeim tíma geti verið svo komið að dregið hafi úr frjósemi vegna aldurs eggjanna. Þá sé tæknilega erfiðara að frysta egg en fósturvísa. Eggfruma sé stærsta fruma líkamans og líklegra að hún skemmist þegar hún þiðnar.

Þórir segir erfitt að svara því hvort hægt sé að búast við því að yngri konur komi til slíkrar meðferðar, það velti á mörgu, meðal annars viðhorfum í samfélaginu. Til að ná góðum árangri í eggfrystingu þyrftu konur að koma á aldrinum 20-25 ára en þá séu fæstar konur að hugsa um slíkt. Það sé frekar þegar þær eru á miðjum fertugsaldri og þá geti verið komið nálægt því að sé orðið of seint. Reyndar sé það nú svo að ekki sé mikið verið að ýta þessu sem möguleika að konum, frekar að benda á að æskilegra sé að eignast börn fyrr ef mögulegt er og ef þær vilji eignast börn yfir höfuð.

Frestun barneinga helsta ástæða ófrjósemi

Meginástæða þess að ófrjósemi eykst, segir Þórir, er sú þróun að fólk frestar barneignum og þeirri þróun verður líklega ekki svo glatt snúið við, kannski ætti að leggja áherslu á það í fræðslu að fólk bíði ekki of lengi. Stöðugar og áberandi fréttir jafnvel utan úr heimi af barneignum frægra kvenna sem eru komnar um og yfir fertugt ýti undir þá skoðun fólks að það geti haft meiri stjórn á þeim en raunhæft sé.