María Kristjánsdóttir, fjallar um tvær sýningar, Kvenfólk í Borgarleikhúsinu og Insomniu í Þjóðleikhúsinu.
María Kristjánsdóttir skrifar:
Insomnia
Ég les sjaldan viðtöl við aðstandendur sýninga áður en fer að sjá þær. En illu heilli heyrði ég áhugavert og vitsmunalegt viðtal við Grétu Kristínu Ómarsdóttur, leikstjóra verksins Insomnia áður en leikhópurinn Stertabenda frumsýndi það í Kassanum í Þjóðleikhúsinu. En Insomnia er eitt af samstarfsverkefnum Þjóðleikhússins á þessum vetri. Þar sagði Gréta Kristín leikhópinn ætla að rannsaka hvernig sjálfsmynd kynslóða verður til í gegnum skemmtanaiðnaðinn í samtímanum. Þau kryfji Friends-þáttaröðina vinsælu sem sýnd var frá árinu 1994 til 2002 og hafi verið hluti af uppeldi heilu kynslóðanna mótað þær, litað afstöðu þeirra.
Nú tilheyri ég ekki þessum kynslóðum og hef ekki séð nema nokkra þætti af dýrðinni, en aulafyndnina úr þeim þáttum hef ég vissulega séð víða bergmála í sjónvarpi og í stjórnmálum. Ég hlakkaði því til að vera viðstödd niðurstöðu rannsóknarinnar einnig minnug síðustu ágætu sýningar Stertabendu. Starfsaðferð þeirra nú var að leikhópurinn rannsakaði og spann, um langan tíma, atriði úr þáttunum , sá spuni var síðan settur í hendur ungri danskri skáldkonu Amalie Olesen sem vann úr honum leikverk sem leikstjórinn Gréta Kristín þýddi loks yfir á íslensku. Leikverkið byrjar á athygliverðan hátt í nokkurs konar grískri eilífð þar sem verið er að smíða samfélag, leita að sameiginlegum gildum og minnir þar óþægilega margt á okkar tíma;blekkinguna um að allir geti verið vinir og hundahreinsun tungumálsins. Svo er hoppað án tengingar yfir í að skoða ýmsar hliðar persóna sjónvarpsþáttarins og líkur það allt með dauða þeirra. Því miður reyndist verkið of langt og þunglamalegt. Það bar hvorki merki rannsóknar né nýrrar leikhússsýnar. Því verður helst lýst sem nokkurs konar minningarathafnar um vinina sex í Friends þar sem sungið er og haldnar eru endalausar ræður þeim til heiðurs. Stundum eru þær ákaflega fyndnar en stundum einsog margar minningargreinar í Mogganum: fjalla meira um þann sem heldur ræðuna en hinn látna. Leikstjórinn virðist því miður einnig ekki hafa getað náð fjarlægð á verkið eða verið svo hrifin af leikurunum sínum og spunavinnunni með þeim að hún megnaði ekki að strika út atriði sem nauðsynlegt hefði verið að strika til að sýningin hökti ekki heldur flæddi. Endurspeglast þar sjálfmiðað líf félaganna í Friends í sjálfsmyndinni eða líður verkið og sýningin einfaldlega bara undir reynsluleysi höfundar og leikstjóra? Kunna þær ekki alveg enn að umbreyta hugsun sinni í áhugaverðan leikrænan heim?
Leikararnir sex, þau María Heba Þorkelsdóttir, Þorleifur Einarsson, Vala Höskuldsdóttir, Tinna Sverrisdóttir, Sigríður Eir Zophoniasardóttir og Bjarni Snæbjörnsson ná samt öll að sýna hæfileika sína í einstaka atriðum, sérstaklega hreifst ég af Þorleifi. Halldór Sturluson gerir ákaflega hugvitsamlegan ramma um sýninguna en því miður eru möguleikarnir sem í honum felast alls ekki nægilega vel nýttir. Ég vildi sem sagt að ég hefði ekki hlustað á viðtalið við Grétu Kristínu þá hefði ég ekki haft neinar væntingar og niðurstaða kannski orðið önnur.
Kvenfólk
Gestaleikur Norðanmanna, leikfélagsins Hunds í óskilum, í Borgarleikhúsinu í sömu viku á revíunni „Kvenfólk“ er hins vegar sprottinn úr menningarumhverfi sem stendur mér nær en ameríski menningariðnaðurinn. Tvíeykið Hjörleifur Hjartarson og Eiríkur Stephensen halda hér áfram á gamansaman hátt lestri sínum á Íslandssögunni og taka nú loks fyrir kvenfólkið sem svo sárlega hefur vantað í hana öldum saman og kom því allt of lítið fyrir í fyrri lestrum þeirra. Þeir byrja auðvitað á byrjuninni þegar Papar flýja hingað í einsemdina og sæluna undan rauðhærðum frekjudósum á Írlandi. Sá friður er svo rofinn þegar norskir víkingar koma til landsins og eru með í farteskinu nokkrar rauðhærðar sem þær hafa rænt á leið sinni um Írland. Og þá kemst sagan á flug því að engin er saga án kvenfólks. Og er svo rakin ill meðferð á konum, þöggun þeirra, uppreisn og barátta gegnum aldir. Að lokum standa þær uppi sem sigurvegarar , hafa tekið yfir sviðið og hafa hátt.
Sem fyrr eru Hjörleifur og Eiríkur ýmist í hlutverki sögumanna, eða leika frumsamda sketsa, syngja og leika á ólíklegustu hljóðfæri eins og þvottavélar, vefstóla, katla og g-strengi! Ágústa Skúladóttir leikstjóri er ekki eftirbátur þeirra í hugmyndaríkum lausnum. Skemmtilega er blandað saman fortíð og nútíð í gegnum alla sýninguna. Þannig á Útvarp Saga innkomu í fornöldinni, Pussy Riot eru tengdar Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og rauðsokkutíminn og kvennalistinn settur á svið sem útvarpsleikhús reyndar leikið í búningum. Og fyrst talað er um búninga þá verður að tala um Iris Eggertsdóttur sem gerir skemmtilega óreiðukennda konuleikmynd og enn betri búninga. Sérstaka athygli mína vakti hvernig hún gat gert þá félaga, sem sögumenn, kynlausa, þannig að aldrei skapaðist ástæða til að hlæja að þeim sem körlum í kvenfatnaði.
Fyrri hluti verksins er sýnu fyndnari og skemmtilegari en sá síðari. Meginástæðan held ég er sú að með útvarpsleikritinu, sem er verulega hnyttið, er allt í einu kominn of langur kafli þarsem rofnar hið beina samband við þá félaga. Það verður áhorfanda ljóst í lokin þegar þeir verða aðeins tveir svartir skuggar aftast í leikmyndinni á bak við hið kraftmikla ungmeyjaband. Eiginlega glæsilega hugsuð lausn og lok, en þá brýst fram óskýranlegur söknuður eftir Eiríki og Hjörleifi, einkum þó þeim síðarnefnda, en margur atvinnuleikarinn gæti hrósað happi hefði hann aðeins brot af þeirri geislandi nærveru sem Hjörleifur hefur á sviði.