Skáldsagan Heiður segir af þeim Heiði McCarron og Dylan, sem eru íslensk og írsk að uppruna. Þau hafa ekki sést frá því að faðir þeirra fór með Dylan til Norður-Írlands sjö ára gamlan. Þegar hann hefur samband eftir 28 ára þögn og biður hana um hjálp hefst atburðarásin. Í bakgrunni eru þjóðernisátökin sem áratugum saman héldu norður-írsku samfélagi í heljargreipum. Höfundurinn, Sólveig Jónsdóttir, ræddi tilurð bókarinnar og sögusvið hennar á Morgunvaktinni á Rás 1.
„Ég hef alltaf haft ofboðslega mikinn áhuga á Írlandi,“ sagði Sólveig og rakti áhugann til ömmu sinnar, Málfríðar Sigurðardóttur, sem bjó á Akranesi, og hún tileinkar bókina. „Hún ferðaðist inni í stofu, hlustaði á írska tónlist og hafði mikinn áhuga á írskri menningu.“
Sólveig Jónsdóttir lauk námi í stjórnmálafræði hér heima og síðan meistaraprófi í þjóðernishyggju og þjóðernisátökum við háskólann í Edinborg í Skotlandi. Í lokaritgerð sinni bar hún saman sjálfstæðisbaráttuna á Íslandi og Írlandi. Frá Skotlandi fór hún oft til Norður-Írlands með vinum sínum og heyrði sögur af fólkinu þar - sögur sem hún átti eftir að nýta í sögunni um Heiði og ættingja hennar. Þá bjó Sólveig um hálfs árs skeið í Dublin. Hún þekkir því vel írska menningu og sögu - ekki síst afleiðingar átakanna á Norður-Írlandi, sem leiddu til þess að um 3.500 manns létu lífið á árunum 1968 til 98. En hvernig horfir staðan á Írlandi við henni núna? „Friðurinn þarna er viðkvæmt fyrirbæri, án þess að það séu líkur á að allt fari í bál og brand aftur. En það vantar töluvert á að hlutirnir séu gerðir upp. Eins og einhver sagði: Þarna er heil þjóð sem þjáist af áfallastreituröskun.“ Og nú bætist við óvissa vegna Brexit, sem Norður-Írar eru almennt mótfallnir. Það er vert að hafa augun á því hverju fram vindur á írsku eynni.