Ákvörðun norsku Nóbelsnefndarinnar um hverjir fái friðarverðlaunin í ár þykir koma á óvart að hálfu leyti. Pakistanska unglingsstúlkan Malala Yousafzai deilir þeim með minna þekktum indverskum baráttumanni fyrir réttindum barna.
Malala Yousafzai var sterklega orðuð við verðlaunin í fyrra eftir að liðsmenn talibana nær drápu hana fyrir að blogga um menntun stúlkna. Núna er hún talin eiga enn meira erindi við fólk vegna framgangs íslamskra öfgahreyfinga.
Öfgum og ágirnd sendur tónninn
Tvískipting verðlaunanna í ár er túlkuð svo að Nóbelsnefndin vilji bæði senda herskáum íslamistum tóninn en einnig gráðugnum vestrænum fyrirtækjum. Pakistanska stúlkan Malala hefur barist fyrir réttindum stúlkna í íslömskum ríkjum til menntunar. Hún byrjaði á að blogga og það kostaði hana nær því lífið i hitteðfyrra. Þá ákváðu talibanar að ráða hana af dögum fyrir skoðanir sínar á réttindum stúlkna. Malala særðist alvarlega í tilræði en lifði af. Hún er 17 ára, yngst allra til að hljóta þennan heiður.
Kailash Satyarthi er á hinn bóginn baráttumaður fyrir réttindum barna, sem oft verða að eyða æskuárunum við vinnu fremur en nám. Mörg vestræn fyrirtæki, einkum í fatagerð, nýta sér vinnuafl barna til að framleiða ódýr föt á Vesturlandabúa. Satyarthi er Indverji og aðalmaður í hjálparsamtökum, sem beita sér fyrir menntun barna sem hafa ung orðið að vinna fyrir fjölskyldum sínum í verksmiðjum.
Berjast fyrir réttinum til menntunar
Í báðum tilvikum, bæði hjá Malala og Satyarthi, er áherslan á rétt barna til menntunar, hvort sem þau eru órétti beitt vegna vinnu eða trúarofstækis. Með því að veita Malölu verðlaunin nú er líka á vissan hátt verið að bæta fyrir að hún fékk þau ekki í fyrra heldur stofnun, sem ekki var byrjuð að vinna vinnuna sína. Nú var henni spáð verðlaununum, sérstaklega vegna framgangs íslamskra öfgahreyfinga eins og Íslamska ríkisins og Boko Haram og baráttu þeirra gegn mannréttindum, þar á meðal gegn réttindum kvenna. Malala er rakin andstæða slíkra hópa.