Undanfarið hafa fregnir hafa bardagasveitum Kúrda verið áberandi í fjölmiðlum um heim allan. Helst hefur verið fjallað um baráttu þeirra gegn vígasveitum Íslamska ríkisins og þátttöku kúrdískra kvenna í átökunum.

Eyrún Ólöf Sigurðardóttir, mastersnemi í mannfræði, segir að fréttaflutningur af kúrdísku frelsishreyfingunn sé fulleinfaldaður. „Hann nær ekki utan um flækjustig málsins, sem er mjög mikið,“ segir Eyrún.

„Kúrdistan er ekki ríki í eiginlegri merkingu og hefur aldrei verið,“ segir Eyrún. Kúrdistan vísar til landssvæðis sem í dag tilheyrir fjórum mismunandi þjóðríkjum: Tyrklandi, Sýrlandi, Írak og Íran. Á þessu landssvæði hafa Kúrdar verið í meirihluta íbúa og kúrdísk menning og tungumál hefur verið ríkjandi. 

Kúrdistan

Kúrdíska frelsishreyfingin
„Það er hægt að tala um fæðingu nýrrar kúrdískrar frelsishreyfingar árið 1978 þegar Kúrdíski verkamannaflokkurinn, PKK, er stofnaður í Tyrklandi,“ segir Eyrún. Fljótlega eftir stofnun flokksins, eða árið 1984, hóf PKK vopnað andóf gagnvart tyrkneskum stjórnvöldum sem hefur staðið yfir með hléum síðustu þrjátíu árin. Því eru átök tyrkneska hersins og PKK, sem eru áberandi í fréttum þessa dagana, alls ekki ný af nálinni.

Upphaflega barðist Kúrdíska frelsishreyfingin fyrir stofnun sjálfstæðs ríkis Kúrda og lagði mikið upp úr marxísk-lenínískum hugmyndum um stéttastríð. Á tíunda áratugnum urðu hins vegar straumhvörf í hugmyndafræði Kúrdísku frelsishreyfingarinnar. „Þau hafna því að þjóðríki geti nokkurn tímann tryggt hagsmuni fólksins og hafa þróað kenningar um lýðræðislegt bandalag,“ segir Eyrún.

Rojava-verkefnið
Lýðræðislegt bandalag gengur út á það að samfélögin skipuleggi sig sjálf og starfi saman á flötum grunni. Hugmyndin er sú að þar með sé hægt að vinna í sameiningu þvert á þjóðríki og óháð landamærum. Þessu stjórnskipulagi hefur þegar verið hrint í framkvæmd og er oft nefnt Rojava-verkefnið. Kúrdar hófu að skipuleggja sín eigin svæði í Tyrklandi fyrir um tíu árum, og svo í Sýrlandi í kringum Kobane eftir að sýrlenski stjórnarherinn dróg sig frá landssvæðinu.

Kúrdískar konur grípa til vopna
Í fréttaflutningi af baráttu Kúrda við Íslamska ríkið, sérstaklega tengt átökunum um Kobane, hefur þátttaka kvenna í vopnuðum átökum hlotið mikla athygli. Þátttaka kvenna er hins vegar alls ekki nýlunda. „Konur hafa stundað skæruhernað við hlið karla undanfarna áratugi,“ segir Eyrún og leggur áherslu á að barátta kúrdískra kvenna er ekki aðeins gegn Íslamska ríkinu þar sem hún er byggð á mun breiðari hugmyndafræði.

Víðsjá ræddi við Eyrúnu Ólöfu Sigurðardóttur, mastersnema í mannfræði, um Kúrdistan.