Björgunarmenn á vettvangi í Sveinsgili hafa nú náð að staðsetja manninn sem leitað hefur verið að í ánni undir skaflinum. Unnið er að því að ná honum upp.

Þetta kemur fram á vef lögreglunnar. Þar er sagt að nú séu aðrir björgunarsveitarmenn að ganga frá á vettvangi bæði við ána og í Landmannalaugum þar sem vettvangsstjórnstöð hefur verið starfrækt.

Umfangsmikil leit hefur staðið yfir í rúman sólarhring að manninum í Sveinsgili, nærri Landmannalaugum. Ríflega 200 manns hafa komið að leitinni. Tilkynning barst um slysið á sjötta tímanum í gærkvöld. Mennirnir tveir, sem eru franskir, voru á leið úr Landmannalaugum, niður Sveinsgil og að Torfajökli. Þegar þeir voru komnir langleiðina, á móts við Dalbotn, rann annar mannanna niður ísbreiðu sem þarna er, lenti í ánni og barst með henni undir ísinn.