Víðsjá ræddi við Tryggva Thayer um framtíðarfræði en samkvæmt kvikmyndinni Back to the Future II frá 1989 er framtíðin nákvæmlega núna í dag, 21. október 2015.
Í kvikmyndinni Back to the Future 2 frá árinu 1989 ferðast söguhetjan Marty McFly til okkar sem lifum í núinu. Heimurinn tekur á móti honum einmitt á þessum degi, 21. október 2015. Í þeim heimi eru til sjálfreymandi skór, svífandi bílar og hjólabretti, róbóta bensínstöðvar. Leikstjóranum Robert Zemeckis, var víst meinilla við að skjóta framtíðaratriðin, því honum var illa við flestar myndir sem reyndu að segja frá framtíðinni. Það kemur ekki í veg fyrir að þetta er einhver frægasta framtíðarsýn kvikmyndasögunnar, kannski ekki síst út af húmornum og því hve skemmtilega lummó atriðið er í augum okkar í dag.
En við lifum samt í heimi þar sem eitthvað af þessu rýmar ágætlega. Eftirlitsmyndavélar eru allsstaðar, ómönnuð loftför (drónar) eru notuð í alls konar tilgangi, m.a. til að sprengja upp varnarlausa borgara í fjarlægum löndum. Úti í verslun dynja auglýsingar á okkur, bæði hljóð og skilaboð af skjáum, þó auglýsingaskiltin tali ekki við okkur úti á götu eins og í Back to the Future II. Fingraför geta veitt okkur aðgang og jafnvel liðkað fyrir greiðslu. Við göngum jafnvel í tækninni í einhverjum tilfellum.
En hvernig velta framtíðarfræðingar fyrir sér framtíðinni? Tryggvi Thayer er verkefnefnastjóri á menntavísindasviði. Hann kom í spjall í Víðsjá og ræddi um framtíðarfræði sem hann hefur lagt stund á og nýtt sér. Viðtalið má heyra hér að ofan