Framleiðsla á rafmagni er hafin á Flúðum í fyrstu svokölluðu lágvarmavirkjuninni. Með nýrri tækni er nú hægt að virkja lágvarma til orkuframleiðslu. Í Kópsvatnsvirkjun í Hrunamannahreppi er umframvarmi úr borholu nýttur til framleiðslu rafmagns, vatnið úr holunni er um 120 gráður.
„Með þessu erum við að virkja vatn sem að hefði bara farið beint út í vindinn, því að hitaveiturnar eru ekki að nýta vatn sem er svona heitt að megninu til. Hitaveiturnar eru að taka vatn sem er 80 til 90 gráður og það er vatnið sem við skilum frá okkur,“ segir Ingvar Garðarsson stjórnarformaður Flúðaorku. Vatnið sem kemur frá virkjuninni verður svo nýtt í hitaveitu Flúða í framhaldinu, þá verður það orðið um 80 gráður.
Raforka fyrir 2.400 heimili
Ingvar segir að með nýrri sænskri tækni hafi loks tekist að nýta lágvarma til virkjunar. Búið er að setja upp fjórar vélar og til stendur að bæta við fjórum í viðbót. „Við erum búin með 600 kílóvött, við bætum við öðrum 600 kílóvöttum og það er þá raforka fyrir 2.400 heimili eða tæplega 4.000 rafbíla,“ segir Ingvar. Vélarnar eru frá sænsku fyrirtæki og heldur smáar í sniðum. Anna Arvidsson, verkefnastjóri hjá Climeon, er stödd hér til þess að prófa vélarnar. Hún segir allt ganga mjög vel enn sem komið er.
Virkjunin er í eigu Flúðaorku, sem er félag í eigu Varmaorku og Hrunamannahrepps. Verkefnið var unnið í samstarfi við sveitarfélagið sem Ingvar segir að eigi stóran hlut að máli. „Við höfum bara væntingar til þess að við náum að bjóða landsmönnum orku í nærumhverfinu í framtíðinni. Og fara svona aftur til sveitamenningarinnar þar sem raforkan er búin til í héraði og nýtt í héraði.“