Jólaundirbúningurinn byrjar snemma í verksmiðju ORA því þar eru framleiddar þrjátíu þúsund dósir á dag fyrir hátíðirnar, þegar best lætur. Það er margur siðurinn sem tilheyrir jólunum og jólaundirbúningi og margt af því tengist mat. Meðal þess sem fólk neytir í meiri mæli yfir jól og áramót eru niðursoðnar grænar baunir.
Um mánaðamótin september, október byrjar starfsfólk verksmiðju ORA að framleiða fyrir jólin, þar á meðal grænar baunir. Yfir jólahátíðina eru seldar tæplega sjö hundruð þúsund dósir af baununum.
„Við reynum að taka langar lotur í grænum baunum og á góðum degi þá tökum við 30.000 dósir þannig að það fara nokkrir dagar í þetta,“ segir Sigurður Ingi Halldórsson, framleiðslustjóri ORA.
Fátt er íslenskara í hugum margra en Ora grænar baunir um jólin. Þær eiga sér þó alþjóðlegan bakgrunn því að baunirnar koma frá Bandaríkjunum, þær eru settar í dós frá Danmörku. Henni er svo lokað með loki frá Mexíkó. „Við fáum baunir frá Bandaríkjunum, frá Seattle. Við byrjum á því að leggja þær í bleyti. Það flýtir fyrir upptöku vatns og þyngir þær örlítið,“ segir Sigurður Ingi.
Eftir að baunirnar hafa legið í bleyti er sykri og salti bætt við og þær soðnar í stórum katli. Næst fara þær í steinaskiljuna og þar á eftir upp í síló sem velur rétta þyngd í dósirnar.
Næst liggur leið baunanna um hitagöng til að ná súrefni úr vatninu. Þar á eftir eru lok sett á dósirnar og þær innsiglaðar fyrir suðu. „Þær eru þvegnar og komið fyrir í suðukörfum áður en þær fara síðasta skrefið sem er suðuofninn. Þar eru þær teknar upp í 116 gráður á celsíus og þar með erum við búin að drepa allar bakteríur inni í dósinni og náum upp þessu langa geymsluþoli.“