Ríkjandi bikarmeistarar Fram urðu í kvöld fyrsta liðið til að tryggja farseðil sinn í undanúrslit í bikarkeppni kvenna í handbolta. Liðið vann öruggan útisigur á Selfossi sem tryggði sætið í undanúrslitum.

Fram byrjaði leikinn af krafti og leiddi 4-0 eftir sjö mínútna leik. Þá sá Örn Þrastarson, þjálfari Selfoss, sig knúinn til að taka leikhlé en Selfossliðið hafði tapað boltanum fjórum sinnum í sókninni og aðeins náð einu skoti á markramma Fram. Leikhlé Arnar skilaði þó litlu þar sem Framkonur héldu áfram að sýna yfirburði sína. Það var ekki fyrr en eftir tólf mínútna leik sem Selfossi tókst að setja mark sitt á leikinn er liðið minnkaði muninn í 9-1 með sínu fyrsta marki í leiknum.

Sex-núll vörn Fram var Selfossi illviðráðanleg og liðið refsaði með hraðaupphlaupum. Selfoss-liðið náði aðeins að bæta fjórum mörkum við áður en fyrri hálfleikur var úti en Fram var með tólf marka forystu í leikhléi, 17-5.

Þrátt fyrir að liði Selfyssinga hafi gengið betur að skora í síðari hálfleik var aldrei spurning um hvort liðið færi í undanúrslitin. Fram var áfram með tögl og hagldir og vann liðið að lokum 34-22 sigur sem tryggir ríkjandi meisturunum sæti í undanúrslitum bikarsins.

Steinunn Björnsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir úr Fram voru markahæstar á vellinum í kvöld með átta mörk hvor.

Leikurinn var sá fyrsti í 8-liða úrslitum bikarsins en á morgun munu annað hvort Haukar eða Stjarnan fylgja Fram í undanúrslitin. Þá tekur 1. deildarlið FH á móti Val á miðvikudag og ÍBV mætir KA/Þór á laugardag.

Að ofan má sjá viðtöl við Þórey Rósu Stefánsdóttur úr Fram, Perlu Ruth Albertsdóttur úr Selfossi og Stefán Arnarson, þjálfara Fram, sem tekin voru eftir leik.

8-liða úrslit í karlaflokki hefjast í kvöld þar sem karlalið Selfoss mætir Val. Sýnt verður beint frá þeim leik á RÚV 2 klukkan 20:00.