Þrjú verk ungra leikskálda eru sýnd þessa dagana í Borgarleikhúsinu undir yfirskriftinni NÚNA 2019. „Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að hlúa að leikritun í okkar samtíma með þessum hætti,“ segir Benedikt Hjartarson prófessor í bókmenntafræði, sem þykir framtakið til fyrirmyndar.
Borgarleikhúsið hafði áður stuðlað að sams konar verkefni þar sem ungir leikritahöfundar eru hvattir til þess að senda inn hugmyndir að verkum til uppsetningar á svið leikhússins. Leitað var til sex ungra höfunda um hugmyndir að 30 mínútna leikritum og urðu þrjár hugmyndir fyrir valinu. Höfundar þeirra eru Hildur Selma Sigbertsdóttir með verkið Sumó, Þórdís Helgadóttir með verkið Þenslu og loks Matthías Tryggvi Haraldsson með verk sem kallast Stóri björn. Verk þeirra voru þróuð áfram í samvinnu við dramatúrga Borgarleikhússins og leikstjóra verkefnisins, Kristínu Jóhannesdóttur.
Rætt var um sýninguna í Lestarklefanum, umræðuþætti um menningu og listir.
„Mér finnst þetta framtak hjá Borgarleikhúsinu frábært, að skapa þennan ramma og gefa upprennandi leikskáldum færi á að skrifa verk til uppsetningar hjá stóru atvinnuleikhúsi. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að hlúa að leikritun í okkar samtíma með þessum hætti,“ segir Benedikt Hjartarson prófessor í bókmenntafræði. Benedikt segir sýninguna mjög kröftuga, hún sé vel unnin og leikstjórn Kristínar hafi einnig verið mjög öflug. „Mér fannst líka mjög flott að sjá hvernig hægt var að tengja saman þessi þrjú verk sem hafa verið sögð mjög ólík en koma einmitt saman og mynda ákveðna heild. Leikurinn var upp til hópa nokkuð sterkur. Þetta var sýning sem hélt manni,“ segir Benedikt um sýninguna Núna 2019 á Litla sviði Borgarleikhússins.
Byrjaði og endaði vel
„Byrjaði vel og endaði vel, sem er ákaflega hraðsoðinn dómur,“ segir Gísli Ásgeirsson þýðandi. Gísli vill meina að leikhúsið hafi þá sérstöðu yfir aðra miðla að þar er ávallt ákveðin skuldbinding að fara þangað inn. „Það er ekki fallega gert að fara út áður en sýningin er búin. Ég get slökkt á sjónvarpinu, útvarpinu og tölvunni, staðið upp í miðjum klíðum við eiginlega hvað sem er en það þarf mikið til svo að maður geri það í leikhúsi. Ég viðurkenni það fúslega að í seinna hléinu þá var það lauslega íhugað hvort þetta væri ekki orðið ágætt. En við vildum gefa þessu séns,“ segir Gísli og telur að sýningin hafi runnið pínulítið út í sandinn í miðverkinu en gefur þann fyrirvara að hann sé kannski þröngsýnn og illa lesinn smáborgari sem ekki hefur fattað verkið.
„Ég var ánægður að við skyldum vera áfram, því að Stóri björn fannst mér langsamlega skemmtilegasta og best unna verkið. Mjög flott uppsetning. Leikið á búninga, tjáningu, hljóð og myndmál ekki síst. Á heildina litið var þetta góð leikhúsupplifun,“ segir Gísli Ásgeirsson.
Mikil orka frá leikskáldunum
Lilja Birgisdóttir myndlistarkona var sammála Gísla í mörgu og segir sýninguna hafa verið mjög skemmtilega. Lilja lifir og hrærist í heimi lista, þar sem stanslaust er verið að ögra fólki og farið er um víðan völl. „Þessi ungskáld bæði treysta sjálfum sér og treysta áhorfendum. Þetta eru rosalega heiðarleg verk, mjög ólík en þar kemur smekkur fólks að hvernig verkin eru dæmd. Það sem mér finnst sitja eftir voru leikararnir. Þetta var svo frábærlega vel leikið,“ segir Lilja sem viðurkennir jafnframt að hún fari lítið í leikhús og hafi því séð mörg ný andlit.
„Mér fannst mikil orka frá leikskáldunum, leikurunum, og þau leyfa sér húmor og að tala um hversdagslega hluti. Mitt uppáhaldsverk var líka Stóri björn eftir Matthías Tryggva. Mikill húmor í því og maður upplifði hans karakter í því líka,“ segir Lilja um verk þessarra þriggja ungu leikskálda.