„Frá fæðingu byrjum við að deyja“

27.06.2017 - 11:17
Þrjár systur í Vilníus Yönu Ross fjallar að mati Maríu Kristjánsdóttur, leikhúsrýni Víðsjár, um vonlausa stöðu smáþjóðar í heiminum og deilir á á ríki og hópa sem hagnast á vopnaframleiðslu, landvinningum, og því að blekkja smáríki til fylgislags við sig. Sýningin spyr áleitinna hlutlægra spurninga, kemur manni stöðugt á óvart og hristir upp í sálartetrinu.

María Kristjánsdóttir skrifar:

Í upphafi mánaðarins maí gisti ég í tvo daga í höfuðborg Litháen, Vilníus. Við fyrstu sýn er að minnsta kosti miðborgin sniðin fyrir manneskjur. Ekki bíla, auglýsingar eða gráðuga verktaka með vonda arkitekta í þjónustu sinni. En það er kannski vegna þess að miðborgin, sem  er með miðaldaskipulagi og stærsta barokkborg norðan Alpafjalla, er á heimsminjaskrá Unesco. Fimm hundruð þúsund manns búa hér. Það er bjart, hreint, grænt, friðsælt í kringum þá. Hér er hægt að anda. Fyrsti steinninn var lagður á þrettándu öld. Goðsögnin segir að Gediminas stórhertoginn af Litháen hafi verið á veiðum í dalnum milli  fljótanna Neris og Vilniu. Hann lagðist til svefns í helli nokkrum og kom þá til hans í draumi risastór úlfur sem gólaði einsog hundrað úlfar. Draumurinn var ráðinn þannig að á þessum stað ætti hann að reisa kastala, byggja borg sem yrði ósigrandi eins og járnúlfur. Gólið í úlfunum hundrað táknaði að svo mikil yrði dýrð þessarar borgar að hróður hennar myndi berast um veröld víða.  Gediminas byggði að sjálfsögðu borgina og nefndi hana efti ánni Vilniu.  Gediminiasslektið gerði borgina að aðalaðsetri sínu og  jók næstu aldir við yfirráðasvæði sitt með hjónaböndum og réttum  bandalögum, þegar veldi þeirra var mest náði Litháen yfir Hvíta Rússland, Úkrainu  og hluta af Póllandi og Rússlandi.

Stöðugar innrásir

Á sextándu öld sameinuðust Pólland og Litháen í eitt sambandsríki. Vilnius varð stjórnarsetur  þar sem  fjölþjóðlegt samfélag dafnaði. Talaðar voru margar ólíkar tungur og ólík trúarbrögð  þrifust þar hlið við hlið. Gyðingar voru fjölmennir og svo áhrifamiklir að borgin var oft nefnd Jerúsalem norðursins.  Á átjándu öld komst landið undir yfirráð Rússakeisara, en á tuttugustu öld bjó það við stöðugar innrásir erlendra hersveita. Þjóðverjar réðust inní landið  í upphafi fyrri heimsstyrjaldar, en frá 1918 til 1922 börðust herir Litháa, Póllands og Rússlands um borgina. Það stríð sigruðu Pólverjar og þótt Litháar fengu langþrátt sjálfstæði var Vilnius hluti af Póllandi næstu tvo áratugi. 

Árið 1940 réðst Rauði herinn inn í landið eftir griðasáttmálann við Þjóðverja og Litháen varð eitt af  Sovjétríkjunum og Vilnius höfuðborg þess.  Varla var það árið liðið þegar herir  Þjóðverja rufu griðin,  lögðu landið  undir sig og höfðu þar öll völd í þrjú ár og upphófst þá skelfilegasta útrýming gyðinga sem um getur í Evrópu.  99% féllu í valinn og gengu Litháar sjálfir rösklegar til verka en þýski innrásarherinn.   Rauði herinn lagði loks nazistana  að velli árið 1945 og aftur varð Litháen  eitt af Sovétríkjunum og ríkti það ástand næstu fimm áratugi eða þar til Litháen lýsti yfir sjálfstæði sínu árið 1990 í Vilníus.

Mynd með færslu
 Mynd: Dmitrij Matvejev  -  www.teatras.lt

Þetta er nokkuð langur inngangur að umfjöllun um leikhús, en nauðsynlegur og þar þarf að bæta við að sjálfstætt Litháen gekk eins og flest fyrrum ráðstjórnaríki fljótlega í Nato. Þar með  voru strax þverbrotnir samningar sem gerðir höfðu verið við Rússa um að ekkert fyrrum Varsjárbandlagsríkja skyldi leyfa setu erlendra herja á landi sínu. Litháen er enn og aftur orðið peð í valdabaráttu stórvelda og þeirra er græða á vopnaframleiðslu. 

Meira fé í stríðstól

Eftir að Rússar yfirtóku Krím hefur áhugi Bandaríkjanna og meðreiðarsveina þeirra í Nató stóraukist á Eystrasaltslöndunum.  Aðeins í fimmtíu kílómetra fjarlægð frá Vilnius híma nú þýskir, pólskir, belgískir og bandarískir hermenn í gámum og tjöldum og þessari fátæku þjóð  er gert  að setja æ meira fé í skriðdreka og stríðstól. Rússar eru svo til að sýna vald sitt með  miklar hersýningar  hinum megin við landamærin,  ekki er heldur  langt þangað.

Það er undir þessum ógnum vígbúnaðarkapphlaups  sem Yana Ross setur á svið í Þjóðleikhúsinu í hinni friðsælu borg Vilnius „Þrjár systur“ eftir Anton Tsjekhov . Þetta ljúfsára nostalgíska verk, um systurnar Olgu, Irenu og Möschu er flestu leikhúsáhugafólki kunnugt. Þær  eru innilokaðar í lítilli borg í einhverjum útnára en þangað hafa þær flust frá sinni elskuðu Moskvu með hershöfðingjanum föður sínum til herdeildar hans. Faðirinn er látinn en systurnar eru þarna enn ásamt bróðurnum Andrej og halda áfram að taka á móti félögum föðurins úr hernum.  Þær dreymir um að komast burt, aftur  heim til Moskvu,  dreymir um um annað líf, lífshamingju.

Mynd með færslu
 Mynd: Dmitrij Matvejev  -  www.teatras.lt

Yana Ross staðsetur verkið í Litháen dagsins í dag. Systurnar komu þangað árið 1984 ásamt föðurnum sem fór fyrir  rússnesku  hersetuliði og dreymir því alls ekki um að komast aftur heim nú þrjátíu árum eftir hrun Sovétríkjanna. Moskva er reyndar, held ég,  ekki nefnd á nafn í þessu spunaverki uppúr ýmsum þráðum í verki Tsjekhovs. Samtölin að stærstum hluta skrifuð upp á nýtt af Yönu og leikskáldinu Minaugas Tastaravicius. 

Aðsetur systrana er ekki lengur fjölskylduhúsið heldur  hefur  myndhöfundurinn Simona Bieksaite umbreytt  sviðinu í risastóran bráðabirgða hermannabragga, með einhvers konar mötuneyti, borðum og stólum, færibandi, píanói og á hvítan  bakvegg er varpað  simultan myndum úr sex eftirlitsvélum  sem beint er að leiknum. Þær, eins og í Sölku Völku, gefa nærmyndir af dramatískum augnablikum en einnig birtast á veggnum myndir af atburðum  sem gerast utan herbúðanna svosem brunanum í borginni, hernaðarumsvifum og örlögum barónsins.  Algirdas Gradauskas á heiðurinn af myndvinnslunni.

Allsherjar óreiða skellur á áhorfendum

Systurnar þrjár eru því ekki lengur á sínu eigin heimili heldur í rými Natoherja. Hermennirnir koma úr öllum áttum. Baróninn Tusenbach er þýskur, Versinski orðinn pólskur, mættur er líka til leiks ameríkaninn James Rode, aðrir eru litháskir og hver og einn talar tungumál föðurlandsins en sín á milli bjagaða ensku. Þessi blanda tungumála skellur fyrst á áhorfandann eins og allsherjar óreiða, sem hann reynir að greiða úr með því að fylgjast hratt með enskri þýðingu sem birtist í textavélum. En ekki bara ólík tungumálin skella á áhorfandann heldur mátar heilinn líka stöðugt myndirnar sem birtast á sviðinu sem og á bakveggnum við gamlar myndir úr sýningum á hinu upphaflega Tsjekhovs verki.

Grófari samskipti

Systurnar eru miklu eldri en vant er. Þær eru miðaldra, hversdagslegri, lausar við rómantískan trega, mónólógum þeirra um von og vinnu sleppt.  Lífsreynslan segir til sín í glímunni við vandamál dagsins. Irena gengur vösk til verka í mötuneytinu, Masha er að drekka sig í hel og Olga er orðin ráðríkur skólastjóri. Bróðirinn Andrej spilafíkill sem fyrr, en nú á internetinu, og hin fávísa Natasjha ekki eins óviðfelldin og í fyrri sýningum sem ég hef séð. Samskipti fjölskyldunnar opnari, grófari. Mætt er til leiks ný persóna sem áður birtist aðeins í stöðugu umtali eiginmannsins Versinski, hin viðkvæma Agnes, sem veldur usla, er óútreiknanleg. Fókusinn á fjölskylduna nema helst Irenu vill  oft hverfa í leikglöðu hermannaumhverfinu , hermennskan á yfirborðinu glaðvær skemmtun, segja má að sýningin skiptist í þrennar veislur: Afmæli Irenu, nýjársfagnað,  og undirbúning að brúðkaupi Irenu.

Mynd með færslu
 Mynd: Dmitrij Matvejev  -  www.teatras.lt

En leikir hermannanna afhjúpa dulda árásagirni, grimmd. Og vopn sem fljóta inn á færibandinu, herflugvélar sem fljúga yfir, flugeldar sem skjóta skelk í bringu, logandi borgin sem og aðrar myndir Gradauskas á bakveggnum sjá til þess að áhorfandi gleymir aldrei hryllingi allra stríða. Ekki er ljóst hvert hlutverk hermannanna er hér á þessum stað, en þeir eru ekki komnir til að vera fremur en hjá Tsjekhov og systurnar vilja líka komast burt. Irena tekur þá markvissu og eingöngu praktísku ákvörðun að  giftast vonbiðli sínum hinum þýska baróni Tusenbach sem elskar hana svo mikið að hann er farinn að læra lithásku í gemsanum sínum. Þau ætla saman til Þýskalands. Á þá ákvörðun er ekki bundinn endi með einvígi eins og hjá Tsjekhov heldur fremur baróninn sjálfsmorð.

Tilgangurinn sjálfur og enginn annar

Fremur hann sjálfsmorð vegna óendurgoldnar ástar, spyr áhorfandi sig, eða táknar bruni borgarinnar og froðan úr slökkvitækjunum sem veltur yfir sviðið styrjöld sem boðar dauða hans? Úr froðunni stígur nefnilega fram í stað systranna þriggja hin óútreiknanlega Agnes með lokamónólóg áminnandi að frá fæðingu byrjum við að deyja vegna þess að rörsýn okkar fær okkur til að meiða þá sem við elskum og börnin okkar tileinka sér það versta í fari okkar og níðast  áfram á sínum eigin. Sveiflar sér svo yfir í Nietsche „öll hafið þið, mín kæru, skemmt mér, ég hlæ enn að ykkur í hálfum hljóðum “ og lokasetning hennar sem við erum skilin eftir með, er splunku nýr texti: Tilgangur lífsins er einungis: Tilgangurinn sjálfur og það er enginn annar tilgangur með því.

Að venju var ég full aðdáunar á aðkomu Yönu Ross að eldri textum, hún finnur á þeim nýja fleti snýr upp á þá af miklu ímyndunarafli, spyr áleitinna hlutlægra spurninga, kemur manni stöðugt á óvart, hristir upp í sálartetrinu. Mér er í lófa lagið að finnast sýningin ekki bara fjalla um vonlausa stöðu smáþjóðar í heiminum heldur einnig vera gagnrýni á öll ríki og hópa sem hagnast á vopnaframleiðslu og landvinningum og blekkja smáríki til fylgislags við sig.

Að minnsta kosti má fullyrða að í hersetnu landi, þar sem atvinnuleysi er mikið og menn í leit að lífshamingjunni dreymir ekki bara um að komast burt, heldur hafa 400 þúsund manns flúið land frá 1990,  þá ratar Tsjekhov í höndum Yönu  til sinna – það staðfestu viðbrögð áhorfenda.

Morguninn eftir sátu næstum því þrjár íslenskar systur á kaffihúsi og biðu eftir flugi. Það var kominn virkur dagur og á gangstéttunum mátti hvað eftir annað sjá glaðlega  litháíska hermenn ganga fram hjá í sólskini , karla og konur. Eins og stigið hafi þau út úr leiksýningu Þjóðleikhússins.  Það syrti yfir.