Þjórsá er lengsta á landsins. Tvöhundruð og þrjátíu kílómetrar, sýslumörk Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Hún er að miklu leyti jökulá, er voldug og vatnsmikil og því erfið yfirferðar á árum áður. Nú hefur hún verið brúuð á fleiri en einum stað og orka hennar nýtt en  sex vatnsaflsstöðvar eru á vatnasviði Þjórsár og Tungnaár.

Það er til marks um hve erfitt gat verið að fara yfir Þjórsá að tveir af mögnuðustu fossum landsins, sem í Þjórsá eru, bera hvor sitt heitið, eftir því hvorum megin árinnar er staðið.

Stórbrotnastur er Dynkur, eins og Gnúpverjar kalla hann eða Búðarhálsfoss meðal Holtamanna. Dynkur er ekki ósvipaður Gullfossi þegar hann er vatnsmestur, hann fellur í mörgum fossum eða stöplum niður gljúfrið með háværum dynkjum og látum. Ofan við Dynk er foss sem vestan ár heitir Hvanngiljafoss en austan hennar Kjálkaversfoss og neðan við Dynk er hinn formfagri og glæsilegi Gljúfurleitarfoss.

Gljúfurleitarfoss er þverskorinn og af mörgum talin einn af fegurri fossum landsins þar sem hann fellur þráðbeinn og af miklum krafti í gljúfur Þjórsár.

Fossarnir eru ekki mjög aðgengilegir bílum en enginn verður svikinn af því að ganga að þeim, hlýða á niðinn frá beljandi ánni, hvar hún steypist í gilið og njóta einverunnar og náttúruaflanna sem á þessum slóðum sýna vel mátt sinn og megin.

Þessi fossaröð var áður mun kraftmeiri og kyngimagnaðri, þegar vatnið fékk óhindrað að steypast niður árfarveginn en þrátt fyrir að rennslið sé nú mun minna, er fossaröðin ein af þeim stórfenglegri í íslenskri náttúru.

Umhverfi Þjórsár er stórbrotið og fjölbreytt hvort sem ferðast er þar um sumar eða vetur. Í fyrsta þætti af Ferðastiklum slást Lára Ómarsdóttir og Ómar Ragnarsson í för með Ferðaklúbbnum 4x4 inn á miðhálendi Íslands að vetri til, en svæðið er einnig skoðað að sumri til og þá er á því allt annar blær.