Fimmtíu ár eru um þessar mundir frá Apollo 8-leiðangri NASA, yfir jólin 1968. Þrír bandarískir geimfarar lögðu þá í lengsta ferðalag sem nokkur manneskja hafði farið og jafnframt eitt það hættulegasta — út fyrir sporbaug jarðar og á braut um tunglið.

Fjallað var um Apollo 8-leiðangurinn á Morgunvaktinni á Rás 1.

Ferðin tókst vel og geimfararnir þrír fóru tíu hringi í kringum tunglið áður en þeir fóru svo aftur niður til jarðarinnar. Markmið leiðangursins var ekki síst að kanna tunglið og taka myndir af yfirborði þess, enda markmið NASA að lenda þar geimfari í náinni framtíð.

En geimfararnir sáu líka jörðina úr sjónarhorni sem engin mannvera hafði gert áður. Ljósmynd Bill Anders af „jarðarupprás“ frá tunglinu, 24. desember 1968, hefur verið kölluð ein áhrifamesta ljósmynd sögunnar.

Anders sagði sjálfur að þó þeir hefðu verið sendir alla leið út í geim að kanna tunglið hefði þeirra mikilvægasta uppgötvun þar verið jörðin.