Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir að ákvörðun hans um að bjóða sig fram aftur hafi ekkert að gera með bakgrunn þeirra sem eru í framboði og hvort þeir geti tekist á við aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu.

Ólafur Ragnar greindi frá því á blaðamannafundi á Bessastöðum í gær að hann hefði tekið þá ákvörðun að bjóða sig fram til endurkjörs. Í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun sagði hann að sá fjöldi áskorana sem hann hafi fengið undanfarna mánuði hafi borið með sér að undiralda óvissu og ótta væri í samfélaginu sem hann teldi skyldu sína að bregðast við. 

Mikilvægt sé að forseti hafi djúpstæða þekkingu á stjórnskipan landsins og geti byggt sínar ákvarðanir á þekkingu, dómgreind og styrk. „Einn af skýringarþáttunum af hverju ég tók þessa ákvörðun er að á tímum óvissu þá er verulegur hluti þjóðarinnar, við vitum ekki ennþá hve stór,  sem spyr um reynslu, festu og hvernig hefur viðkomandi staðist prófraunir og vilji ekki taka áhættu af einhverjum sem aldrei hefur gengið gegnum slíka prófraun,“ segir Ólafur Ragnar. 

Hann segir að erfiðustu augnablikin sem hann hafi upplifað í opinberu þjónustu hafi verið að taka ákvörðun um það í fyrra skiptið að vísa Icesave-málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Með nánast allan þorra þeirra sem gegndu opinberum skoðanastöðum í íslensku þjóðfélagi á móti þeirri ákvörðun.“

Ef Ólafur Ragnar nær endurkjöri sér hann fram á 24 ár í embætti. Hann var spurður að því í Morgunútvarpinu hvort það væri þráseta í embætti. „Auðvitað er það óheppilegt að ástandið sé þannig að sá sem kjörinn er til þessa embættis telji sig tilknúinn að gefa kost á sér í svo langan tíma og það er ekki heldur það sem við ætluðum okkur og það er ekki auðveld ákvörðun að snúa við á þeirri för í átt að frelsinu sem við vorum hér á undanförnum mánuðum og ákveða að gefa kost á sér og þar með að taka á sig skuldbindingar næstu árin og afsala sér því frelsi sem í því felst að bera ekki lengur þessa daglegu ábyrgð. Það er ekki vottur af einhverri viðleitni af minni hálfu til þess að vera með þrásetu af þessu tagi.“