Beðið var fyrir breyttum viðhorfum til fóstureyðinga á Kristsdegi í Hörpu í dag. Biskup segir málið ekki hafa verið rætt innan kirkjunnar. Forseti Íslands segir umburðarlyndi kjarna kristninnar, hann hafi því mætt án skilyrða um umræðuefni á hátíðina.

Kristsdagur var haldinn í Eldborgarsal Hörpu í dag. Hátíðina setti forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, og á mælendaskrá voru meðal annars biskup Íslands og Geir Haarde fyrrverandi forsætisráðherra. Á Kristsdegi koma saman forsvarsmenn hinna ýmsu kristilegu trúfélaga á landinu og sameinast í bæn fyrir landi og þjóð, eins og segir í kynningu hátíðarinnar.

Á lista yfir Bænarefni Kristsdags, sem finna má á vefsíðu hátíðarinnar, er meðal annars bæn um breytt viðhorf til fóstureyðinga. Biskup Íslands segir þjóðkirkjuna ekki hafa átt þátt í að semja bænaskrána. Aðspurð um hvort þetta endurspegli afstöðu kirkjunnar til fóstureyðinga segir biskup málið ekki hafa verið rætt innan kirkjunnar. „Það hefur bara ekkert verið rætt um þetta málefni innan kirkjunnar. Það bara gilda viss lög í landinu um fóstureyðingar, en auðvitað leggur kirkjan áherslu á það eins og kristin trú að varðveita lífið, en það er ekki þar með sagt að fóstureyðingar eigi ekki rétt á sér í vissum tilfellum,“ segir Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands segir það vel þekkt að kristnir söfnuðir hafi ólíkar áherslur og túlki testamentin með ólíkum hætti. „Og það er kjarni kristninnar að sýna umburðarlyndi gagnvart öllum skoðunum en virða um leið réttinn til umræðu og gagnrýni. Þess vegna fannst mér engin ástæða til þess að það séu sett einhver skilyrði um það hvað menn vilju segja, heldur komi hver og einn söfnuður að þessum einstaka degi á sínum forsendum, með sýnar áherslur,“ segir Ólafur Ragnar.