Mikill meirihluti þeirra beina sem grafin voru upp í fornleifarannsókn á bílastæðinu við Landsímahúsið fyrir tveimur árum báru merki um vannæringu og vosbúð. Stór hluti þeirra voru börn. Beinin voru frá 16 og 17 öld. Vala Garðarsdóttir, fornleifafræðingur er að ljúka við bráðabirgðagreiningu á beinunum.
Tugir beina úr Víkurgarði í geymslu Þjóðminjasafns
Nokkrir tugir forfeðra Íslendinga eiga hinstu hvílu í geymslu Þjóðminjasafnisins. Þar eru fyrrverandi kumlbúar og aðrir sem komið hafa upp við fornleifauppgröft hér á landi og þar má finna þá sem áður hvíldu í Víkugarði. Á annan tug beinagrinda og lausabein komu upp við framkvæmdir á svæðinu á árunum 1940, 1960 og 1967.
Hrönn Konráðsdóttir er sérfræðingur fornminja á Þjóðminjasafninu: „Við erum með 17 sem eru úr gröfum en svo erum við með töluvert af öðrum beinum beinum sem eru lausafundir meira.“
Glímdi við næringarskort
Einnig eru í geymslum Þjóðminjasafnsins bein sem fundust við fornleifauppgröftinn á bílastæðinu við Landsímahúsið fyrir tveimur árum þar sem nú á að rísa hótel.
Vala Garðarsdóttir, fornleifafræðingur: „Hér t.d. er kona á miðjum aldri sem hefur þurft að glíma við næringarskort og álög í sínu lífi. Það sést þá aðallega á bæði höfuðkúpunni á beinunum, kinnbeinunum og þá sérstaklega á tönnunum.“
Líkamsleifarnar voru austast á Landsímareitnum. Ekki hefur verið hægt að finna nöfn fólksins því engar merkingar fundust á gröfunum
„Vitum við hvað þessi kona var gömul þegar hún lést? Hún hefur verið í kringum fertugt og hefur líklegast látist af bólusótt.“
Talið er að fjörutíu og einn hafi verið grafinn á svæðinu. Þeir voru mjög líklega jarðsettir á sextándu og sautjándu öld. Af heillegum beinagrindum voru 12 ungabörn, á aldrinum 0-2 ára, tvö börn á aldrinum 3-12 ára, tvö ungmenni, 13-20 ára og svo 21 fullorðinn.
„Þessar hertu línur, þetta eru glerungaskemmdir. Maður getur þá séð að manneskjan hefur verið, á einhverjum tímapunkti, undir miklu álagi veik eða lifað við viðvarandi næringaskort.“
Flest beinin börn undir 10 ára aldri
„70% af þeim einstaklingum sem við gátum greint, hvort sem voru í ruslalögum eða í gröfum, hreyfðum eða óhreyfðum, voru börn undir 10 ára aldri þannig að það er mjög hátt hlutfall af börnum. Og þeir einstaklingar sem voru yfir tvítugt að þeir voru flestir með heilsufarsbrest af einhverjum toga og flest af því var þá vannæring og vosbúð og næringarskortur.“
Beinin verða áfram á beinasafni Þjóðminjasafnsins þar sem þau verða rannsökuð frekar. Vala segir að þau fari í fornDNA-greiningu hjá Íslenskri erfðagreiningu.
„Þá verður sá efniviður og sú þekking fer þá inn í gagnagrunn Íslenskrar erfðagreiningar.“