„Fór fram úr okkar björtustu vonum“

12.05.2017 - 16:32
Það eru fleiri menningarhátíðir í gangi um þessar mundi en Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, en Feneyjartvíæringurinn hófst í vikunni. Víðsjá náði tali af Kristínu Aðalsteinsdóttur, verkefnastjóra Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar og íslenska skálans í Feneyjum, sem stödd er úti í sólinni.

„Stemmningin er hreint út sagt frábært,“ segir Kristína. „Við bjuggumst ekki við svona rosalega mörgum, þetta fór fram úr okkar björtustu vonum.“ segir hún um opnunarteiti Egils Sæbjörnssonar, sem fór fram á fimmtudaginn. 

Íslenski skálinn hefur fengið mikla og góða fjölmiðlaumfjöllun. „Það er eitthvað við þetta verk sem trekkir svakalega að. Það eru ákveðnir pólitískir undirtónar í því sem tröllin segja og gera og þau breytast í hina ýmsu karaktera,“ segir Kristína en undirstrikar að verkið einkennist þó af mikilli leikgleði. 

En hvernig er yfirbragð hátíðarinnar yfirhöfuð? Er hún pólitísk í ár?

„Já, ég held það verði ekki hjá því komist,“ segir Kristín, en vísar í orð Christine Macel, sýningarstjóra stóru samsýningar hátíðarinnar í ár. „Yfirskrift hátíðarinnar í ár er Viva arte viva. Macel vill leggja ofuráherslu á listina sjálfa, listina fyrir listina.“

Kristína segir hins vegar að fjöldi verka á hátíðinni hafi samfélagslega skírskotun, til að mynda verk Ólafs Elíassonar á samsýningunni, lampaframleiðsla, þar sem ágóðinn fer til góðgerðarmála. Eins má nefna bandaríska skálann. „Mark Bradford tekur þátt fyrir hönd Bandaríkjanna og hann hefur hrint af stað samfélagslegu verkefni líka samhliða sýningu sinni.“ Kristína segir að þetta sé áberandi á hátíðinni í ár, listamenn tengja verk sín samfélagslegri þátttöku. „Það er ákveðið ástand í heiminum í dag, bæði hvað varðar flóttamenn og þá sem eru við völd í heiminum, fólk hefur áhyggjur af þessu og það skín í gegn,“ segir Kristína.

Mynd með færslu
Halla Þórlaug Óskarsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi