Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, segir að gosinu í Grímsvötnum sé ekki lokið þó verulega hafi dregið úr gosvirkni. Hann varar fólk við að fara nærri gosstöðvunum vegna sprengihættu.

Grjóthnullungar tonn að þyngd, geti þeyst mörg hundruð metra upp í loftið í sprengingum. Magnús Tumi segir ómögulegt að spá fyrir um hversu lengi gosið muni halda áfram, reynslan af Grímsvatnagosum sé að það geti mallað áfram í nokkra daga eða vikur, eða jafnvel klárast í dag.

Lögregla varar einnig við ferðum að gosstöðinni því ennþá komi sprengjuvirknin í hviðum og öflugar sprengingar inn á milli. Fólk er beðið um að fara ekki nær en að skála Jöklarannsóknafélagsins, í um 6 km fjarlægð.

Fréttastofa náði tali af Karli Ólafssyni fjallaleiðsögumanni í morgun, þegar hann var staddur við eldstöðina ásamt fimmtán manna hópi ferðamanna. Hann sagði eldstöðina vera mjög svarta og að gríðarleg aska hefði fallið sunnan megin á jökulinn. „Þetta lítur þannig út að það eru nokkrir gufubólstrar sem ná upp fyrir gígbarminn.  Þetta er voðalega lítið og er að deyja út,“ sagði Karl.

 Á fundi vísindamanna í Skógarhlíð í morgun kom fram að gosórói hefur farið minnkandi og er ekki lengur um að ræða samfelldan gosmökk. Ekki er búist við miklu öskufoki. Gjóskuframleiðsla er óveruleg og er að mestu um að ræða gjóskufok á sunnanverðum jöklinum.

Að sögn sérfræðinga Veðurstofunnar mældist strókur í um 7 km hæð í gærkvöldi og þá mældust 2 eldingar.
Um tvöleytið í nótt  kom strókur sem mældist upp í 12 km hæð á radar og 12 eldingar mældust.

Síðan þá hefur lítið mælst á radar og sjónarvottar á svæðinu upplýstu um að komið hafi litlir strókar upp í 100-300 m hæð, sem eru mest megnis gufustrókar, en ösku megi þó sjá öðru hvoru.  Strókar sem fara upp í þessa hæð, hafa ekki áhrif á flugumferð, einungis á nærumhverfi sitt. Ekki er hægt að útiloka að öflugri öskustrókar geti komið fyrirvaralaust. 

 Hér má sjá myndband sem Gunnlaugur Starri Gylfason, myndatökumaður RÚV, tók við eldstöðina skömmu eftir miðnætti.