Mikill skortur er á fólki í fjölmörgum iðngreinum, þar á meðal í múrara- og sjúkraliðanámi. Mennta- og menningarmálaráðherra, segir mikilvægt að efla námsgreinar sem endurspegli atvinnulífið.
Sýningin Mín framtíð var opnuð á fimmtudag en þar eru framhaldsskólar kynntir og Íslandsmót iðn- og verkgreina fór þar fram í dag. Á sýningunni eru hátt í 70 kynningarbásar og geta gestir og gangandi prófað ýmislegt og skellt sér í fjölmörg störf. Nemendur hafa fengið tækifæri til að kynna sínar deildir síðustu daga.
Mikill skortur er á nemendum í pípulögnum, málm- og véltækni, dúkun, múrun og sjúkraliðanámi svo fátt eitt sé nefnt. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hvetur alla til að kynna sér hvaða námsleiðir eru í boði en hún var sjálf ekki lengi að grípa í múrskeiðina.
„Þetta er mikilvægt vegna þess að þetta endurspeglar atvinnulífið okkar og það er eftirspurn og þörf á menntuðu fólki úr þessum greinum og við sjáum það til að mynda að það er annað hlutfall og aðrar tölur sem við sjáum sem eru að útskrifast til að mynda á íslandi úr iðnverk og tæknigreinum en til að mynda Noregi og ég hef bara mjög mikinn áhuga á að sjá fjölgun af því það er verið að kalla eftir því,“ segir Lilja.