Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, hefur velt upp þeirri hugmynd að leggja skatt á kjöt til að bregðast við áhrifum kjötneyslu á heilsufar og bregðast gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Andrés segist hafa fengið töluverð viðbrögð. Það mætti segja að fólk hefði skipst í tvær fylkingar og greinilega þætti mörgum vænt um kjötstykkið sitt. „En ég held að þetta sé mikilvæg umræða að taka." Við skuldum komandi kynslóðum það að bregðast við vanda loftslagsbreytinga.
Munar mest um þarmagös jórturdýra
„Til að leysa þennan vanda þurfum við að draga úr neyslu, draga úr útblæstri, og við þurfum að beita öllum verkfærum sem við eigum," sagði Andrés í Síðdegisútvarpi Rásar 2. „Eitt af þeim er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði. Á Íslandi losar landbúnaðargeirinn 14% af þeim gróðurhúsalofttegundum sem Ísland losar. Stærst er náttúrulega stóriðjan sem losar næstum helming og svo koma samgöngur. En þetta er þriðji stærsti geirinn og þar munar mest um dýrin, þarmagösin sem svo eru kölluð, metanið sem verður til í meltingu jórturdýra. Ef við ætlum að minnka losun frá landbúnaði svo einhverju nemi þá þurfum við að fækka jórturdýrum. Það gerum við með því að minnka eftirspurnina, með því að færa neysluna úr kjöti yfir í grænmeti."
Tryggja þarf hagsmuni komandi kynslóða
Hann segist ekki hafa útfært þessa hugmynd en líta þurfi til þess að það snerti neytendur ekki illa heldur lækki verð á matarkörfunni þegar kjötmagnið minnki í henni. Einnig þurfi að líta til stöðu bænda, að þeir hafi sín laun örugg og geti lifað af því að vera bændur. „Þá gæti þurft að hjálpa einhverjum að komast yfir í loftslagsvænni framleiðslu." Þriðji aðilinn við borðið séu svo komandi kynslóðir. „Einhver þarf að taka upp hanskann fyrir þær og tryggja að hagsmuna þeirra sé gert þegar við förum að breyta þessu kerfi og umbylta til að geta tekist á við loftslagsbreytingar."
Andrés segir að vandinn sé viðráðanlegur í ljósi þess að kjötneysla hafi aukist síðustu 20 ár um eitt kíló af kjöti á ári. „Sú breyting gerðist eiginlega án þess að við tækjum eftir því. Þannig að það að breyta þessu til baka ætti ekkert að vera neitt stórmál."
Skattar ekki bara til að afla opinberra tekna
Er skattlagning rétta leiðin?
„Ekkert endilega. Það getur verið hluti af leiðinni. Aðrir hlutar gætu verið að auka stuðning við grænmetisrækt; að niðurgreiða rafmagn til ylræktar, að styðja við aðra vaxtarbrodda í landbúnaði. En við þurfum að skoða þetta svið allt saman og sjá hvað er líklegast til að skila okkur áfram í því að draga úr neyslu sem veldur útblæstri gróðurhúsalofttegunda."
Andrés segir það skipta máli að fólk hafi efni á að borða. „En einhver breyting á skattkerfinu þannig að skattur á matvæli endurspegli meira vistspor vörunnar, það er skattkerfi sem endurspeglar miklu frekar áskorunina sem við stöndum frammi fyrir. Því skattar eru ekki bara tæki til að afla opinberra tekna heldur líka til að stýra því hvar neyslan lendir mest."