Starfsfólk Arctic Fish fékk áfall eftir að fréttir um niðurstöðu Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála bárust í síðustu viku, að sögn Evu Daggar Jóhannesdóttur, líffræðings hjá fyrirtækinu.
„Það var bara sjokkástand í vinnunni daginn eftir. Það var ofboðslega skrítið að koma á kaffistofuna eða í búðina á svæðinu. Það voru allir annað hvort reiðir eða í hálfgerðu áfalli. Síðan er þetta búið að vera eins og maður sé í stanslausri jarðarför einhvern veginn,“ sagði Eva í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Nefndin komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að hún gæti ekki frestað réttaráhrifum ákvörðunar sinnar um að afturkalla rekstrarleyfi fiskeldisfyrirtækjanna Arctic Fish og Arnarlax. Í augnablikinu ríkir því óvissa um framtíð starfseminnar.
Eva Dögg lærði lífræði í útlöndum og flutti á Vestfirði árið 2011 þegar henni bauðst áhugavert starf hjá Arctic Fish. Hún kveðst ekki hafa verið vongóð um að fá áhugavert starf á Íslandi, hvað þá á Vestfjörðum, og hafi því jafnvel séð fyrir sér að starfa erlendis að námi loknu. „Draumurinn var alltaf og vonin. Svo rætist það og maður fær svona slag fyrir viku. Þetta er búinn að vera ofboðslega skrítinn tími,“ segir hún um dagana sem liðnir eru síðan nefndin komst að fyrrnefndri niðurstöðu.
Rætt var við Óttar Yngvason, lögmann Náttúruverndarsamtaka og veiðiréttarhafa sem kærðu áform um sjókvíaeldi í Tálknafirði og Patreksfirði, í Kastljósi í gær. Þar sagði hann að afturköllun leyfanna hefði aðeins áhrif á örfáa og að flestir þeirra væru Pólverjar og útlendingar. Þá sagði Óttar að niðurfellingin hefði áhrif á 10 til 15 störf. Eva segir að ummæli hans hafi lagst mjög illa í Vestfirðinga. „Við skiljum ekki svona. Fyrir botni Tálknafjarðar eru um tíu fastráðnir bara í seiðaeldinu.“ Hún kveðst hafa heyrt að niðurstaðan hafi áhrif á um 150 störf. Það sé ekki rétt að málið hafi áhrif á svo fá störf eins og Óttar sagði. Þá sagði Eva að það skipti ekki máli hvort starfsfólkið sé íslenskt eða útlenskt. „Fólkið býr hérna og tekur þátt í samfélaginu. Þau eru jafn miklir Tálknfirðingar og ég.“
Starfsemi laxeldisfyrirtækjanna hefur haft góð áhrif á samfélagið á Vestfjörðum að mati Evu. Fólki hafi fjölgað og leikskólar yfirfullir. Nú sé boðið upp á fimleika og íþróttaskóla sem ekki hafi verið hægt áður fyrr.