Myndavélar sem fólk setur upp heima sér til þess að fylgjast með börnum sínum geta veitt netþrjótum aðgang að heimilinu. Bæði hér heima og erlendis hafa komið upp atvik þar sem ókunnug rödd berst skyndilega frá tækjunum. Sérfræðingur hjá Opnum kerfum segir að fólk horfi oft í verð á tækjum frekar en gæði.
Snjallvæðing heimila fer ört vaxandi. Til dæmis er fólk farið að stýra hita í herbergjum eða ljósum á heimilinu með símanum sínum í gegnum þar til gerð forrit. Þetta getur sparað raforku og þar með nokkrar krónur, hægt er að stilla kerfið þannig að ljósin séu slökkt ef enginn er heima.
En hvernig vita tækin okkar að allir séu að heiman?
„Snjalltækjalausnin fær að tala við þráðlausa netið heima hjá okkur. Þannig ef að síminn minn er tengdur við þráðlausa netið, gerir lausnin ráð fyrir því að ég sé heima, eða börnin eða konan og svo framvegis“ segir Ingvar Guðjónsson forstöðumaður rekstrarlausna hjá Opnum kerfum.
Ingvar ræddi snjallvæðingu heimilana á UT-messunni um helgina. Hann segir að fólk þurfi að vera meðvitað um hvaða tæki það eru sem koma inn á heimilið. Myndavélar, sem fólk notar gjarnan til þess að fylgjast með börnum sínum eða gæludýrum, eru ekki alltaf öruggar. „Þetta er kannski það tæki sem mér finnst kannski svona hættulegast að fara með inn á heimilið. Fólk er oft að horfa í verð frekar en gæði þegar það er að kaupa sér svona tæki. Kaupir kannski ódýra græju frá Ali express eða eitthvað svoleiðis.“
Ókunnug rödd berst skyndilega frá tækjum
Það segir Ingvar í raun leið inn á heimilið fyrir netþrjóta. „Þarna er í rauninni bara öryggishola inn á heimilið þitt fyrir óprúttna aðila til að tengjast myndavélinni og fylgjast með öllu sem er að gerast inni á heimilinu þínu. Hlusta á samræður og taka þetta efni jafnvel upp.“ Hann segir mikilvægt að fólk muni eftir að breyta lykilorðum. Bæði hér heima og erlendis hafa komið upp atvik þar sem ókunnug rödd berst skyndilega frá tækjunum. „Það hefur heyrst rödd úr myndavélinni inn í barnaherberginu. Foreldrarnir héldu að barnið væri bara sofandi ljúfum svefni og allt í einu heyrist einhver skrýtin rödd innan úr barnaherberginu. Það er verulega óhugnarlegt,“ segir Ingvar.