Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs HÍ, fagnar því að aðgerðir menntamálaráðherra til að auka nýliðun kennara og efla menntun nái bæði til kennaranema og starfandi kennara. Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ, segir að loksins sé fókusinn kominn á réttan stað; á mannauðinn í menntakerfinu.
Frá og með næsta hausti býðst nemendum á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi launað starfsnám. Einnig geta þeir sótt um námsstyrk. Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri fá styrki til að fjölga kennurum með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra boðaði í dag stórsókn í menntamálum og nýliðun kennara. Hún segir að aðgerðirnar muni kosta í kringum 1,6 milljarð króna en það sé góð fjárfesting.
Mikilvægt að grípa til aðgerða
Kolbrún segir mikilvægt að grípa til aðgerða og reyndar sé fólk þegar farið að sjá meiri aðsókn í kennaranám. „Það er aukinn áhugi og umræða um menntun í samfélaginu þannig að ég hef þá trú að þessar aðgerðir séu hvatning." Hún segist fagna mjög samstöðunni í kringum þessar aðgerðir. „Samfélagið í heild er að stíga hér fram og styðja við bakið á kennurum."
„Þetta er löngu tímabært," sagði Ragnar Þór um fyrirhugaðar aðgerðir. „Við höfum vitað af þessu vandamáli í töluverðan tíma, í hvað stefndi. Þess vegna er fagnaðarefni að ráðherra skuli taka þetta þetta alvarlega." Lykilatriði sé að beina sjónum að hlutverki og stöðu kennarans og grípa til aðgerða til að stoppa fyrirsjáanlegan og alvarlegan kennaraskort sem blasir við.
Ætti að vera slegist um kennarastöður
„Þessar aðgerðir eru örugglega betri en að gera ekki neitt," segir Ragnar jafnframt. „Það sem skiptir máli er að fókusinn er kominn á réttan stað. Framtíð menntakerfisins ræðst af mannauðnum í menntakerfinu. Mannauðurinn er í hættu. Þess vegna vonandi duga þessar aðgerðir til að fjölga kennaranemum og gefa menntakerfinu þessa vítamínsprautu sem þarf. En það þarf fleira að koma til. Verðmætamat og mat á menntun í samfélaginu í heild, eins og ráðherra reyndar orðaði, það þarf að breytast. Ég held að íslenska þjóðin misskilji það um hvað menntun snýst. Sem sést til dæmis á þessari ógnvænlegu skekkju í átt til bóknáms. Hún sést líka í því að kennarastarf, sem er eitt eftirsóknarverðasta og mest spennandi starf sem þú getur hugsað þér, að það skuli ganga illa að manna það. Ef allt væri eðlilegt væri slegist um hverja kennarastöðu."
Ragnar sagði langmikilvægast að komið væri að rót þessa vandamáls. „Hingað til höfum við verið að horfa til alls konar hliðarvandamála, minnkandi lesskilnings, versnandi læsis, brottfalls úr skólum. En nú erum við farin að beina sjónum að grundvelli menntakerfisins, mannauðnum í menntakerfinu. Á meðan fókusinn er þar, hvort sem þessar aðferðir duga einar og sér til eða ekki, þá erum við komin með lykilinn að lausninni. Við þurfum þá bara að gera meira ef þetta dugar ekki til."