Flutningur Fiskistofu til Akureyrar er dæmi um hvernig á ekki að flytja stofnanir milli svæða. Þetta segir formaður Viðreisnar. Ríkisendurskoðun kemst að þeirri niðurstöðu að flutningarnir hafi haft neikvæð áhrif á starfsemina. Þingmaður Sjálfstæðisflokks segir aukinn mannafla og peninga í eftirlit litlu breyta, en menn verði að finna til ábyrgðar ef þeir brjóta af sér. Auka þurfi viðurlög og heimildir Fiskistofu við brottkasti og framhjávigtun í stað þess að fjölga eftirlitsmönnum.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, komu í Morgunútvarp Rásar 2 í morgun og ræddu skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu sem kom út fyrir helgi. Þar segir að eftirlit stofnunarinnar sé ófullnægjandi og ríkið þurfi að stíga inn í til að Fiskistofa geti uppfyllt lögbundið hlutverk sitt.
Dæmi um hvernig á ekki að flytja stofnanir
Þorgerður, sem er líka fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, segir niðurstöðu skýrsluna ekki hafa komið sér á óvart. Stjórnvöld þurfi að styðja við Fiskistofu með fullum þunga. Hún gagnrýnir Sigurð Inga Jóhannsson, sem var sjávarútvegsráðherra, fyrir að hafa á sínum tíma eytt öllu púðrinu í flutninga stofnunarinnar til Akureyrar 2015 og 16 í stað þess að efla starfsemina. Stofnunin hafi eðlilega þurft að nýta mannafla og mikinn tíma í að koma sér fyrir á nýjum stað.
„Er ég með þessu að segja að það eigi að flytja Fiskistofu aftur til Hafnarfjarðar? Alls ekki, við viljum engan slíkan hringlandahátt. Við eigum að byggja hana upp með sóma á Akureyri, en þetta er dæmi um það hvernig á ekki að standa að flutningi ríkisstofnana á milli svæða. Við verðum að hugsa hvernig við eflum stjórnsýsluna,” segir Þorgerður.
Hafði mikil og neikvæð áhrif á starfsemi og starfsmenn
Fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar að ákvörðun stjórnvalda 2014 um að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar hafi haft mikil áhrif á daglega starfsemi. Árleg starfsmannavelta var að meðaltali 11 prósent 2008 til 2017, en var mest 2017 eða 18,6 prósent. Flutningarnir reyndust líka kostnaðarsamir.
Í stjórnsýsluúttektinni kemur fram að það hafi verið mat Fiskistofu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis að óvissuástand sem skapaðist í júní 2014 við tilkynningu þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um flutninginn, hafi haft mikil áhrif á daglega starfsemi stofnunarinnar.
„Stjórnendur hennar segja áformin hafa haft neikvæð áhrif á starfsanda og líðan starfsmanna í starfi. Stór hluti þeirra hafi staðið frammi fyrir þeim afarkostum að flytja til Akureyrar eða láta ella af störfum,” segir í skýrslunni. „Langur óvissutími frá því að tilkynnt var um flutninginn og þangað til formleg ákvörðun lá fyrir hafi sett starfsemina í uppnám þar sem mikill mannauður og þekking tapaðist. Í ársskýrslu Fiskistofu 2015 kom fram að til að verja kjarnastarfsemi hefði þurft að draga úr annarri starfsemi svo sem gæða-, umbóta- og þróunarstarfi. Undirmönnun hefði haft áhrif á getu stofnunarinnar til að sinna lögbundnum skyldum sínum og því hefði í lok maí 2015 verið tilkynnt um skerta þjónustu.”
Vill herða viðurlög við brotum
Ríkisendurskoðun segir í skýrslu sinni að eftirlit og innviðir Fiskistofu séu ófullnægjandi og stjórnvöld verði að grípa inn í með því að auka eftirlit með brottkasti og framhjávigtun. Þá sé brýnt að auka gegnsæi varðandi eignarhald aflaheimilda.
Brynjar segir það í raun engu beyta að bæta 20 manns við í eftlirit því það sé ekki hægt að fylgjast með öllu. Frekar ætti að auka viðurlög við brotum.
„Menn þurfa að finna til ábyrgðar ef þeir brjóta af sér og upp um þá kemst. Og það er kannski svolítill lapsus hjá okkur í því, löggjafanum, hvernig við tökum á því. Það eru oft svo litlar afleiðingar, ef þú brýtur af þér,” segir Brynjar.
Hlusta má á viðtal Helga Seljan og Sigmars Guðmundssonar við Þorgerði Katrínu og Brynjar í spilaranum hér að ofan.