Tvær flugferðir til Tenerife menga jafn mikið og fólksbíll á heilu ári. Sigurður Thorlacius, umhverfisverkfræðingur hjá EFLU verkfræðistofu, segir að Íslendingar verði að horfast í augu við það að þeir þurfi að draga úr losun frá flugi. Sigurður þjáist sjálfur af flugviskubiti eftir að hafa farið margar ferðir til útlanda á síðasta ári. Losun hans vegna flugsins var þrjú tonn af koltvísýringi sem er helmingi meira en meðal fólksbíll losar á einu ári.
Að fljúga eða fljúga ekki
„Hi my name is Greta Thunberg. I'm climate activist from Sweden and I'm sorry I couldn't be there with you today since I don't fly I couldn't be there“
Svona ávarpaði umhverfisaðgerðarsinninn Greta Thunberg norræna ungmennaráðstefnu um sjálfbæran lífstíl sem haldin var í Hörpu nýlega. Hún gat ekki komið vegna þess að hún ferðast ekki með flugvélum. Ávarpið var á myndbandi sem sýnt var á ráðstefnunni. Þar sat ungt fólk sem hafði komið með flugvél til Íslands og þar voru líka ungir íslenskir umhverfissinnar sem fara oft til útlanda flugvél bæði sér til ánægju og vegna vinnu. Einn af þeim er Sigurður Thorlacius, umhverfisverkfræðingur hjá EFLU og stjórnarmaður í samtökum ungra umhverfissinna.
„Ég fékk alveg rosalega mikið flugviskubit á síðasta ári vegna þess að ég flaug ansi mikið og búinn að vera svolítið í afneitun með þetta að flugið það er töluverð losun fólgin í flugi og þetta voru eitthvað fimm sex flug.
Ég reiknaði þetta út og þetta voru þrjú tonn af koltvísýringi sem er töluvert. Það er 50% meira heldur en meðalfólksbíll losar á ári þannig að jafnvel þó ég hafi keypt mér rafbíl á síðasta ári þá dugði það nú ekki til að slá á þessa losun. Þannig að ég ætla taka mig á á þessu ári og reyna að fljúga nú ekki meira en einu sinni.“
Tvisvar til Tenerife eins og losun bíls í heilt ár
Losun koltvísýrings frá flugi er ekki eins og losun á jörðu niðri. „Vegna þess að þegar þú sleppir koltvísýringi svona hátt uppi í lofthjúpnum þá hefur hún í rauninni ennþá meiri hnattræna hlýnun en við yfirborð jarðar, um tvöfalt til fjórfalt meira. Þannig að venjulega reikna menn með að það sé tvöfalt meira og ef þú tekur tilliti til þessa þá, ef þú flýgur tvisvar til Tenerífe og til baka á ári, er það jafn mikið og meðalfólksbíll losar á einu ári. Þannig að þú sérð það að þetta er fljótt að yfirgnæfa bílinn ef þú flýgur mikið.“
Reyndi að slá á flugviskubitið með kolefnisjöfnun
Flugviskubit er ekki farið að hrjá landann neitt að ráði ef marka má niðurstöður nýrrar könnunar Ferðamálastofu Íslands. Þátttakendur í henni voru Íslendingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. 1024 tóku þátt í könnuninni. Niðurstöðurnar sýna að 83% aðspurðra fóru til útlanda árið 2018 og að jafnaði fóru þeir í 2,8 ferðir á árinu. Flestir fóru í borgarferðir í fyrra eða 53,9%. Nokkru færri 43,9% fóru í sólarlandaferðir, 34,6% heimsóttu vini og ættingja og 21,6% fóru í vinnutengdar ferðir.
Sigurður reyndi að slá á flugviskubitið með því að kolefnisjafna þessar fimm til sex flugferðir. Hann greiddi í Votlendissjóð og með því stuðlaði hann að endurheimt votlendis. Einnig er hægt að kolefnisjafna með því að gróðursetja tré. Upplýsingar um þær leiðir má finna til dæmis á vefnum kolvidur.is
Endurheimt votlendis og skógrækt dugar ekki til að draga úr eða vega upp á móti mikilli losun frá flugi.
Ekki hægt að bíða eftir tæknilausnum
„Þetta er eiginlega einn af fáu geirunum þar sem við höfum engar tæknilausnir við getum ekki reitt okkur á rafflugvélar. Fyrstu rafflugvélarnar eru kannski að verða til núna á næstu árum en þær munu bara drífa 100 km þannig að það er í mesta lagi fyrir stutt innanlandsflug sem þær duga. Við erum ekki að fá rafmagnsflugvélar fyrir alþjóðaflugið okkar og loftslagsmálin eru bara þannig vandamál að við þurfum að leysa þau núna á næstu tíu árum. Og við höfum ekki tíma til að bíða eftir einhverjum tæknilausnum.“
Eina sem hægt er að gera er að draga úr notkun. „Síðan náttúrlega þurfum við bara að horfast í augu við það að við þurfum að draga úr losun frá flugi og þá er kannski æskilegt að fara í lengri ferðir frekar en að fara í fimm innkaupaferðir, helgarferðir, fara þá í eina lengri og þá ertu búin að dreifa þessari losun á lengra tímabil, ert með marga ferðadaga fyrir eitt flug.“
Ætlar að fækka ferðum
„Hvernig verður þetta hjá þer á þessu ári? Ætlar þú að fækka flugferðum? Já, ég er búinn að forðast það að skrá mig á ráðstefnur erlendis og ég skráði mig á rafrænt námskeið sem ég þurfti að sækja í staðinn fyrir að fara á námskeið sem ég hefði getað farið út í. Ég ætla líka að draga úr skemmtiferðum og reyna að hafa þær lengri vonandi eina eða bara enga á þessu ári.“
Það vakti nokkra athygli að hætt var við árshátíðarferð Vinnumálastofnunar vegna gjaldþrots flugfélagsins WOW air. Það voru vonbrigði fyrir starfsfólkið en kannski ekki fyrir umhverfið. Ennþá er verið að auglýsa árshátíðarferðir í útlöndum í blöðum hér á landi og sjá má í könnun Ferðamálastofu að 21,6% fóru í vinnuferð á síðasta ári, sem var aðeins minna en árið áður þegar 24,2% fóru í slíkar ferðir. Stærsti hópurinn sem fór í slíkar ferðir voru stjórnendur og æðstu embættismenn, 42%, og sérfræðingar 40%.
„Þar sem ég vinn hjá EFLU verkfræðistofu er reynt að hafa svona veffundi ef það er hægt og þá frekar í staðinn fyrir að fljúga út eiga fundinn bara í gegnum Skype eða slíkt. Þetta er hægt, já þetta er voðalega leiðinlegt fyrir Íslendinga að heyra vegna þess að við búum á eyju við komumst ekki til útlanda nema með flugi, reyndar með Norrænu líka það er náttúrlega möguleiki en tekur meiri tíma.“
Markmið Alþjóðaflugmálastofnunarinnar veik
Víða í Evrópu er vaxandi vitund um áhrif flugsins á loftslagsbreytingar og eru til dæmis ferðaskrifstofur farnar að gera út á sólarlandaferðir þar sem ferðast er í lest frá Svíþjóð.
Hver Íslendingur losaði 14 tonn af koltvísýringi árið 2017 en ef flugið væri tekið með í reikninginn er losunin 17,5 tonn á hvern Íslending.
„Menn munu sjá eftir því að vera að fljúga mjög mikið og það er í rauninni rosalega skrýtið að við séum að hrósa okkur fyrir að fara mikið til útlanda þegar það er að losa mikið af koltvísýringi.“
Getur verið að af því þetta telur ekki inn í þetta hefðbundna loftslagsbókhald að fólk hafi bara svona þægilega tekið þetta út fyrir sviga? Já, einmitt það er gott þú nefnir það, það er nefninlega málið með kolefnisbókhald Íslands - þetta er haft til hliðar í bókhaldinu. Ríkisstjórnin okkar er ekki búin að skuldbinda sig til að draga úr losun frá alþjóðaflugi og rauninni engin ríki. Það er frekar Alþjóðaflugmálastofnunin ICAO sem á að sjá um að það sé dregið úr losun í þessum geira en markmiðin sem hún hefur sett sér eru bara mjög veik. Þeir ætla að draga úr losun um 50% fyrir 2050. Við höfum ekki nærri því svo mikinn tíma við þurfum að leysa þetta fyrir 2030.“