Það er ekki bara á Íslandi þar sem tekist er á um flugvelli og staðsetningu þeirra. Í Stokkhólmi, Berlín og fleiri borgum eru flugvellir til umræðu þar sem borgir hafa þanist út. Þetta tengist umræðu um breytingar á skipulagi borga og samgöngum.

Hrund Skarphéðinsdóttir er samgönguverkfræðingur, hefur unnið við borgarskipulag og vinnur nú við umferðarskiplag í Stokkhólmi. Hún segir að nú vilji borgaryfirvöld í Stokkhólmi binda endi á 30 ára deilu og leggja niður Brommen flugvöll sem er umkringdur byggð og flytja flugumferðina til Arlandaflugvallar til að nýta landið í þéttingu byggðar. Ríkið vill það hins vegar ekki. Í Berlín hefur verið ákveðið að leggja niður tvo flugvelli og flytja flugumferð á þann þriðja.

Hrund segir að í borgum Evrópu vilji yfirvöld draga úr þenslu borga út á við og skipleggja þær inn á við, þétta byggðina og efla almenningssamgöngur.

„Við erum að sjá það núna í hinum vestræna heimi að bílaumferð virðist vera að ná ákveðnu hámarki og síðustu árin hefur ekki verið aukning í bílaumferð“. Hrund segir ýmsar ástæður hafa verið nefndar en bendir á aukna áherslu  á almenningssamgöngur og blandaða byggð. 

En hún bendir líka á athyglisverða þróun varðandi bílinn „Karlmenn eru farnir að keyra minna en það er áfram aukning í akstri kvenna. Við sjáum líka að ungir karlmenn eru farnir að taka seinna bílpróf en þeir gerðu þannig að það virðist vera ákveðin lífsstílsbreyting“.

Einkabíllinn skipar ekki sama sess og áður og nú eru ýmiskonar sameignar- eða leiguform komin til sögunnar. Enda er nýtingartími bíls með eindæmum skammur þegar hann er borinn saman við líftíma. 

„Bíllinn er í notkun sirka 2-4 prósent af sínum líftíma“.

Rætt er við Hrund í Samfélaginu.