Halla Þórlaug Óskarsdóttir segir frá Ameliu Earhart og samviskubiti í samtímanum.
Halla Þórlaug Óskarsdóttir skrifar:
Kosningar eru nýafstaðnar hér í Svíþjóð. Svíþjóðardemókratarnir fengu blessunarlega minna fylgi en óttast var, öfgahægriflokkurinn sem kenndur er bæði við rasisma og fasisma. Fylgi flokksins minnkaði enda töluvert í sumar, þar sem hann var eini flokkurinn sem ekki hafði umhverfismál á stefnuskrá sinni og í sumar varð hlýnun jarðar einhvern veginn áþreifanlegri hér í Svíþjóð.
Svíar hafa þó löngum staðið okkur Íslendingum framar í umhverfisvernd. Fræg er til dæmis ljósmynd, sem tekin var á meðan ódæðismaður ók flutningabíl niður göngugötu í Stokkhólmi, af pari sem stóð og flokkaði rusl. Þetta flokkar sig ekki sjálft. Og Svíar kaupa meira að segja ruslið af okkur Íslendingum. Nei, ekki ruslið, endurvinnsluna okkar. Rusl er úrelt hugtak.
Sænskur vinur minn spurði mig um daginn hvort ég kannaðist við orðið flygskam. Ég þekkti ekki orðið og hafði eiginlega ekki haft þörf fyrir það. En nú skammast ég mín hreinlega fyrir að hafa ekki haft þörf fyrir það.
Á íslensku mætti þýða þetta hugtak sem flugskömm, eða jafnvel flugviskubit. Sem sagt, að skammast sín fyrir að ferðast með flugvél og taka þannig þátt í stórfelldum útblæstri koltvíoxíðs. Það er áhugavert hvernig tungumál eru lýsandi fyrir samfélög. Svíar þjást af flugskömm meðan við Íslendingar erum stöðugt með djammviskubit.
Þó tilfinningin sé einhverjum árum eldri, þá spratt orðið flygskam fyrst upp í sænsku árið 2017, og í kjölfarið varð til myllumerkið #jagstannarpåmarken, sem dregur nú á eftir sér ótal ljósmyndir og yfirlýsingar á samfélagsmiðlum. #Jagstannarpåmarken mætti útleggja sem #égheldmigájörðinni á okkar ylhýra.
Ég sit í bíl á leið frá Gautaborg til smábæjarins Lövstabruk. Það er um það bil sjö tíma akstur og með mér í aftursætinu situr níu mánaða dóttir mín. Þar sem ég horfi á hana sofa fer ótal margt í gegnum huga minn. Í fyrsta lagi vona ég, eins og líklega flestar mæður, að allir hennar draumar rætist. Og ég veit að til þess að hún þori að eltast við sína drauma þarf ég að eltast við mína. Allt í einu varð það mikilvægara en áður, því ég þarf að sýna henni að það sé hægt. Við þurfum öll að hafa fyrirmyndir.
Fyrsta bókin sem ég keypti handa dóttur minni, sem þá var ófædd, er hluti af bókaröð sem kallast „litlar manneskjur með stóra drauma“. Hún fjallar um flugkonuna Ameliu Earhart, fyrstu konuna sem flaug yfir Atlantshafið.
Amelia Earhart fæddist í júlí árið 1897. Í æsku er henni lýst sem „strákastelpu“, sem nú er eiginlega úrelt hugtak, en hún lék sér með byssur og og bíla. Seinna varð hún ritstjóri á Cosmopolitan tímaritinu, en aðeins til að fjármagna fokdýra áhugamálið sitt, flug.
Hún var uppi á tímum þegar flug var hefjast, Wright-bræðurnir voru vinir hennar, þó hún hafi aðeins verið 6 ára gömul þegar fyrsta vélknúna flugvél þeirra bræðra tókst á loft. Flug var nýjasta æðið, spennandi nýjung sem átti eftir að gjörbreyta heiminum.
Árið 2017 hefði Amelia Earhart orðið 120 ára, hefði hún lifað, en hún hvarf 2. júlí 1937, fáeinum dögum fyrir fertugsafmælið sitt, þar sem hún reyndi að verða fyrsta konan til að fljúga í kringum hnöttinn.
Uppi eru ýmsar kenningar um örlög flugkonunnar djörfu, en bein sem fundust árið 1940 á eyjunni Nikumaroro í Kyrrahafinu hafa löngum verið mönnum hugleikin. Á eyjunni fundust einnig ýmsir munir sem gætu hafa verið í eigu Ameliu Earhart. Og ýmislegt bendir nú til þess að hún hafi eytt síðustu mánuðum ævi sinnar sem strandaglópur á eyðieyju. Fyrstu konuna sem flaug yfir Atlantshafið dagaði uppi á eyju í Kyrrahafinu. Föst.
Flest okkar þekkja söguna af Íkarusi, sem flaug of nærri sólinni, féll í sjóinn og drukknaði. En flugferð Íkarusar táknar ekki flug í eiginlegri merkingu. Þetta er ein af þessum dæmisögum sem við getum dregið lærdóm af. Og það sem Íkarus gerði var að hunsa leiðsögn föður síns. Pabbi hans var nefnilega alveg búinn að segja honum að ef hann flygi of nærri sólinni myndi vaxið, sem hélt vængjunum hans saman bráðna og hann hrapa til jarðar. En hlustaði Íkarus? Nei. Það var bara of gaman hjá honum.
Sagan af Íkarusi kennir okkur að vera ekki fífldjörf. Hún kennir okkur að fljúga ekki of hátt. Hún segir hreinlega við okkur - hlýddu og vertu stilltur. (Haltu þig á jörðinni.) Og ef fólk eins og Amelia Earhart hlustaði á svoleiðis værum við væntanlega enn í hestvögnum – sem kannski væri allt í lagi, ég veit það ekki, ég væri allavega ekki hér í Svíþjóð. Nei, Amelia lét ekki samfélagið stoppa sig. Amelia þráði að fljúga og hún skammaðist sín ekkert fyrir það.
En flugferðir okkar með Ryanair og Easyjet og Air Iceland Connect snúast ekki um flugþrá. Þær snúast ekki um að komast nærri guðunum og upp í himininn, hæstu hæðir. Nei, þær snúast einfaldlega um að stytta sér leið. Nú verða ljósin lækkuð í farþegarýmum. Við bendum á lesljósin fyrir ofan ykkur. Fólk er almennt hætt að lesa og flest lygnum við aftur augunum og bíðum þess að komast aftur niður á jörðina.
Ég ímynda mér að við Íslendingar fljúgum meira en flestar þjóðir. Og okkur finnst það líka nauðsynlegt, því við viljum ekki vera föst á eyju. Við viljum fara til útlanda. Við viljum ekki verða strandaglópar, eins og Amelia Earhart. Hinir geta sleppt því að fljúga, þessi sem búa á meginlandinu. Við þurfum að fljúga. Eða hvað?
Okkur hefur verið kennt að það sé göfugt að ferðast. Notaðu peningana þína frekar í að upplifa hluti heldur en að eignast þá. Hugsaðu þér allt sem þú getur skoðað í heiminum. Heimskt er heimaalið barn. Vitur er sá sem víða ratar…
Dóttir mín steinsefur áhyggjulaus í bílstólnum sínum. Hún hefur ekki enn þá lesið bókina um Ameliu Earhart en hefur nú þegar farið í margar millilandaflugferðir. Hvað á ég að segja við dóttur mína í framtíðinni? Notaðu peningana þína frekar í að (bannað að segja svart, hvítt, já eða nei) … kaupa tré. Hvernig mun heimurinn líta út þegar hún verður jafngömul mér? Verður líft á sumrin hér í Svíþjóð? Verða einhverjir jöklar eftir á Íslandi? Verða flugvélar enn við lýði? Verða þær vistvænar? Auðvitað er einhver þarna úti að hanna vistvænar flugvélar. Það er örugglega komin frumútgáfa til reynslu einhvers staðar. En flug er orðið svo eðlilegur fararmáti. Það eru um það bil 660.000 manns í loftinu þegar ég skrifa þetta. Tvöföld höfðatala Íslendinga.
Eru uppfinningamenn kannski búnir að missa áhugann á flugvélum? Setja markið kannski hærra, upp í geim. Horfa til stjarnanna og láta sig dreyma, eins og Amelia forðum daga. En sá sem finnur upp á umhverfisvænum og hraðskreiðum millilandafararmáta sem hentar fyrir eyjaskeggja í Norður-Atlantshafi fær Nóbelinn. Þið heyrðuð það fyrst hér.
Ég er annars orðin svo leið á því að skammast mín. Skammast mín fyrir að gleyma taupokanum heima. Skammast mín fyrir að nota sjampó, kaupa föt, klósettpappír, plastpela. Og nú fyrir að ferðast. Mig langar bara að einhver finni upp vistvæna flugvél sem ég get ferðast með. Eða einhverja aðra leið fyrir mig til að gera allt sem mig langar til án þess að stækka kolefnisfótsporið mitt og skemma fyrir öllum framtíðarkynslóðum.
Gat ekki pabbi hans Íkarusar búið til almennilegt vax til að halda þessum fjöðrum saman? Það er ótrúlega erfitt að skera niður lífsgæðin sem nú þegar eru í höfn, já eða breyta viðhorfum okkar um hvað lífsgæði eru. En eitthvað neyðumst við til að gera, ef komandi kynslóðir eiga að fá að breiða út vængina líka. Eða við fljúgum bara út í eilífðina og látum sem ekkert sé. Þetta er sökkvandi skip hvort eð er. Er ekki geimurinn næsta flughöfn?