Flugritar úr þotunni sem fórst skömmu eftir flugtak í Eþíópíu á sunnudag verða sendir til rannsóknar í Evrópu. AFP fréttastofan hefur eftir talsmanni flugfélagsins Ethiopian Airlines að enn sé ekki búið að ákveða hvar þeir verði skoðaðir. Áður hafði verið greint frá því að ekki væri til tækjabúnaður í Eþíópíu til að vinna verkið. Að líkindum liggur fyrir á morgun hverjum verður falið að rannsaka flugritana.
Þotan sem var af gerðinni Boeing 737 MAX 8 hafði einungis verið í notkun hjá Ethiopian Airlines í fjóra mánuði þegar hún fórst. Ættingjum þeirra 157 sem létust þegar þotan fórst var leyft í dag að fara að slysstaðnum til að minnast ástvina sinna. Áhöfn og farþegar voru af 35 þjóðernum.