Flóttamönnum á Nauru neitað um læknisaðstoð

21.08.2017 - 01:28
epa01248558 (FILE) A handout picture dated 10 December 2003 shows refugees in the refugee camp on the Island of Nauru. A planeload of Sri Lankan asylum- seekers arriving in Brisbane on 08 February 2008 from Australia's offshore immigration detention
 Mynd: EPA  -  RURAL AUSTRALIANS FOR REFUGEES
Nærri 50 flóttamönnum og hælisleitendum sem haldið er í flóttamannabúðum á Kyrrahafseyjunni Nauru er neitað um nauðsynlega læknisþjónustu í Ástralíu, þrátt fyrir tilmæli lækna þar um. Þar á meðal eru þrjár þungaðar konur, sem samkvæmt læknisráði þurfa að fara í fóstureyðingu. Fóstureyðingar eru bannaðar á Nauru.

Breska dagblaðið Guardian fékk það staðfest frá áströlskum innflytjendayfirvöldum að á fimmta tug flóttamanna á Nauru hafi sóst eftir læknisaðstoð í Ástralíu. Nokkrir þeirra þurfa á aðgerðum að halda sem heilbrigðiskerfið á tíu þúsund manna eyjunni ræður ekki við. 

Innflytjendayfirvöld í Ástralíu ákváðu í júlí að allar beiðnir um flutning frá Nauru vegna læknisaðstoðar þyrftu að fara í gegnum sérstaka nefnd. Áður fóru bráðatilfelli í gegnum tvær ástralskar stofnanir og gengu beiðnir nokkuð hratt í gegn. Heilbrigðisstarfsmenn á Nauru segja nýja kerfið hannað til þess að seinka flutningi. Nefndin hittist sjaldan, pappírsvinnu þeirra sé ábótavant, hún fresti oft ákvörðunum og slái fundum einnig á frest.

Áströlsk stjórnvöld eru á móti því að flóttamenn og hælisleitendur séu fluttir til Ástralíu í mæðraeftirlit. Þungaðar mæður sem fá aðstoð í Ástralíu leiti oft réttar síns fyrir dómstólum í landinu og reyni að fá að dvelja þar áfram í stað þess að vera fluttar aftur í Nauru. Ástralskir dómstólar dæma þeim yfirleitt í hag. Heilbrigðisstarfsmaður sem Guardian ræddi við segir þetta eina ástæðu þess að áströlsk stjórnvöld hafi komið nefndinni á laggirnar. Nú verði nefnd í Nauru að samþykkja að senda konur í aðgerð sem er ólögleg á eyjunni.