Staða frumbyggja á norðurslóðum er flókin í síbreytilegum heimi. Loftslagsbreytingar, tækniþróun, auknar samgöngur, auðlindanýting og nýjar sviðsmyndir í alþjóðamálum - allt þetta og meira til vekur spurningar um það hvort samfélög frumbyggja geti lifað af og orðið sjálfbær. Dr.Jón Haukur Ingimundarson, mannfræðingur og dósent við Háskólann á Akureyri, hefur lengi rannsakað stöðu frumbyggja og starfar á vettvangi Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.
Jón Haukur Ingimundarson ræddi stöðu og framtíð frumbyggja á norðurlsóðum á Morgunvktinni á Rás 1 í aðdraganda opins málþings um þau efni. Hann lýsti því hvernig þessi fjölmörgu samfélög í Kanada, Alaska, Rússlandi og víðar þurfa að takast á við áhrif loftslagsbreytinga með þiðnun sífrera og breytingum á náttúrulegu umhverfi, ásókn auðhringa í land og náttúruauðlindir.
Hann tók sem dæmi að eftir að Justin Trudeau kom til valda í Kanada blasti við honum að viðurkenna að það er ekki bara eitthvað jákvætt sem fylgir því að veita fólki mikla sjálfstjórn í Nunavut. „Þar býr fólk við offitu, vannæringu og fæðuóöryggi.“ Já, offita en samt vannæring. Kókakólasamfélagið teygir sig lang út á víðátturnar. Og ýmis tabú þarf að ráðast gegn í samfélögum frumbyggja.
„Nauðganatíðni er mjög há í Alaska. Það eru bara örfá ár síðan fólk fór að viðurkenna þetta. Við hugsuðum um þessi litlu samfélög sem svo falleg og ekki þyrfti að hafa löggur þar. Þarna eru svona blindir blettir sem allir hafa. Við höfum þetta sjálf og eigum að hugsa um þetta út frá okkur sjálfum, hvernig þetta hefur verið hjá okkur. Fólk er líka misjafnlega langt komið á norðurslóðum varðandi kynjamálefni, þ.e.a.s. bæði kynferðis- og kyngervismálefni,“
sagði Jón Haukur Ingimundarson, sem stýrir í dag umræðum á málþinginu „Frumbyggjar á norðurslóðum: Samræður um sjálfbær samfélög og sameiginlegar áskoranir“ sem haldið verður í Norræna húsinu í dag, 15. maí, frá 14:00-16:45.