Flóðbylgjurnar urðu 90 metrar

25.07.2017 - 16:03
Mynd með færslu
 Mynd: Palle Lauritsen  -  Danski herinn
Öldurnar sem risu eftir að berghlaup varð í sjó fram á Norðvestur-Grænlandi 17. júní urðu allt að 90 metrar á hæð. Þetta sýna rannsóknir jarðvísindamanna sem hafa kannað svæðið þar sem hlaupið varð. Á vef danska útvarpsins DR segir Hermann Fritz einn vísindamannanna að ölduhæðin hafi fljótlega minnkað áður en bylgjurnar breiddust út um Uummannaq-fjörð.

Fjórir létust þegar bylgjurnar skullu á þorpinu Nuugaatsiq og íbúar í nálægu þorpi sluppu naumlega.  Fritz segir að bylgjurnar hafi farið afar hratt yfir og því skiljanlegt að ekki hafi náðst að rýma þorpin. Fimm mínútum eftir að flóðbylgjan reis skall hún á þorpinu sem er í um 30 kílómetra fjarlægð.

Hundruð íbúa Nuugatsiaq og Illorsuit þurftu að yfirgefa heimili sín og geta ekki snúið heim í bráð. Bylgjurnar sem risu eru með þeim hæstu sem vitað er um. Þær urðu til dæmis hærri en þær sem urðu eftir jarðskjálfta í Japan 2011 þar sem ölduhæðin varð um 40 metrar og skemmdir urðu á kjarnorkuveri í Fukushima.