Sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum fjölgaði ekki eftir bankahrun, samkvæmt nýrri rannsókn, ólíkt því sem gerst hefur erlendis í svipuðum aðstæðum. Sjálfsvígstilraunir ungra manna voru algengastar á hátindi síðasta góðæris. Rannsakandi segir niðurstöðurnar koma á óvart.
Hildur Guðný Ásgeirsdóttir hefur undanfarin ár unnið að doktorsrannsókn á áhrifum streitu á sjálfsvíg og sjálfsskaða og hefur sérstaklega skoðað áhrifin af bankahruninu 2008.
„Við vitum hvaða áhrif efnahagshrunið hafði á andlega heilsu. Það voru ýmsar rannsóknir sem bentu til að streita hefði aukist og andleg vanlíðan jafnvel,“ segir Hildur Guðný.
„Erlendis hafa rannsóknir sýnt mikla hækkun – eða mismikla hækkun eftir samfélögum – á sjálfsvígum eða sjálfsskaða eftir efnahagshrun og okkar hrun var náttúrulega töluvert stórt og áhrifamikið.“
Aukning 2013-14 hjá eldri körlum
Rannsóknin leiðir hins vegar í ljós að hér var aukningin engin – hvorki í sjálfsvígum né í komum á bráðamóttöku vegna sjálfsskaða eða sjálfsvígstilrauna.
„Hins vegar núna erum við að skoða aðeins lengra, tímabilið til 2013-14, í rauninni þegar efnahagurinn er aðeins að rísa aftur og þar sjáum við aðeins aukningu meðal eldri karlmanna, 65 ára og eldri, í sjálfsvígum,“ segir Hildur.
Hún segir niðurstöðurnar koma á óvart – í nágrannalöndunum og Bandaríkjunum haldist tíðni sjálfsskaða gjarnan í hendur við aukið atvinnuleysi og lægri þjóðarframleiðslu. Hér heima sé þessu ef eitthvað er öfugt farið, sérstaklega ef horft sé til sjálfsvígstilrauna ungra manna.
„Þar sáum við í raun akkúrat öfugt, sem kom okkur mjög á óvart, við sáum hækkun fyrir efnahagshrun sem lækkaði aftur töluvert eftir efnahagshrun,“ segir Hildur. „Þannig að hápunkturinn vegna sjálfskaða og sjálfsvígstilrauna var í rauninni bara í góðærinu,“ bætir hún við.
Góðærið mögulega meiri streituvaldur en við héldum
Hildur segir að mögulega hafi góðærið verið meiri streituvaldur en fólk áttaði sig á. Ýmsir samfélagslegir þættir kunni svo að skýra hvers vegna sjálfsvígum fjölgaði ekki eftir hrun.
„Ef félagsleg samheldni er mikil í samfélaginu, jafnvel ef jafnrétti er mikið – vegna þess að yfirleitt eru það karlar sem eru frekar í hættu á sjálfsvígum, eftir hrun sérstaklega. Mögulega hefur það haft áhrif að þeir bera ekki eins mikla ábyrgð á að skaffa til heimilisins,“ segir Hildur Guðný Ásgeirsdóttir.