Miklabrautin í Reykjavík er sá vegur á landinu þar sem flest slys verða. Þar urðu 29 alvarleg slys frá 2009 til 2014. Flest verða slysin nálægt gatnamótum. Þetta segir Ólafur Guðmundsson, tæknistjóri alþjóðlegu vegaöryggissamtakanna EuroRAP á Íslandi.
Ungur karlmaður lést í umferðarslysi á Miklubraut um síðustu helgi þegar hann kastaðist út úr bíl sínum og lenti á grindverki á milli akreina. „Miklabrautin er slysamesti vegur landsins. Enginn talar um það því að þar hafa ekki orðið banaslys lengi fyrr en nú um helgina. Frá 2009 til 2014 voru 29 alvarleg slys á Miklubrautinni. Þau voru aðallega tengd umferðarljósunum og gatnamótum að Grensásvegi, Háaleitisbraut og Kringlumýrarbraut en líka á þessum köflum sem við urðum vitni að um helgina. Þetta er hvorki meira né minna en 6,2 prósent af öllum alvarlegum slysum á landinu,“ segir Ólafur. Rætt var við hann í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Fleiri slys vegna girðinga úr teinum
Ungi karlmaðurinn sem lést á laugardagsmorgunn í umferðarslysi á Miklubraut hafnaði á grindverki sem gert er úr teinum. Það er á milli vegriða til að varna því að fólk fari gangandi yfir götuna. Ólafur segir að fleiri alvarleg slys, tengd slíkum grindverkum, hafa orðið hér á landi. Fram kom í frétt RÚV í gær að Vegagerðin ætli að fjárlægja allar slíkar grófar járngirðingar meðfram götum. „Þegar keyrt er á þessar girðingar verða teinarnir að örvum. Fyrir um 15 til 20 árum varð banaslys af sömu ástæðu. Fyrir 10 árum varð banaslys á Rauðarárstíg. Þá fór bíll í gegnum girðingu. Teinarnir stungust inn í bílinn og í gegnum manninn sem var í farþegasætinu. Það mátti litlu muna að ekki tækist að halda honum á lífi.“
Óttast að steinar fari um allt við árekstur
Síðan í vor hafa staðið yfir breytingar á Miklubraut við Klambratún. Þar er verið að koma upp hlöðnum steinvegg sem Ólafur segir hættulegan. Sambærilegur veggur er á Reykjanesbraut í Garðabæ en við hann er vegrið til að varna að bílar keyri á hann. Hann segir ekki standa til að setja vegrið við vegginn á Miklubraut. „Þú getur ekið beint á hann. Þetta eru tvær hæðir þannig að það er hætta á að þetta splundrist og fari á göngustíginn og inn í bíl eða á aðra umferð. Þetta eru nokkuð stórir steinar sem geta splundrast í allar áttir.“
Einnig er búið að koma upp steyptum vegg á Miklubraut. Ólafur segir að yfirleitt séu slíkir veggir í umferðinni sléttir svo að ef farartæki lendi á þeim renni þau eftir þeim. Þá séu brúnir yfirleitt ávalar. „Þarna er búið að hrauna veginn sem þýðir að ef bifhjólamaður fer á hann tætist gallinn af honum.“ Þá séu stallar á veggnum sem geti valdið mikilli hættu sérstaklega fyrir fólk á bifhjólum. „Ef bifhjólamenn fara utan í þetta getur það tekið af þeim höfuðið eða bútað menn í sundur.“ Þá bendir Ólafur á að Landspítalinn sé þarna í næsta nágrenni og að sjúkrabílar og lögreglubílar í forgangsakstri eigi oft leið um Miklubrautina.
Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.