Mun fleiri hafa nú skrifað undir áskorun um þjóðareign fiskveiðiauðlinda, en skrifuðu undir undirskriftalista vegna seinni Icesave-laga 2011 og fjölmiðlalaga árið 2004. Forseti Íslands synjaði fjölmiðlalögum staðfestingar því samhljóm skorti milli þings og þjóðar.

Meira en 45 þúsund hafa skrifað undir áskorun til forseta Íslands að vísa til þjóðaratkvæðagreiðslu öllum lögum sem myndu heimila ráðstöfun fiskveiðiheimilda til lengri tíma en eins árs.

Ekki náðist sátt um fiskveiðistjórnunarfrumvarp sjávarútvegsráðherra á Alþingi og hefur því verið frestað til næsta árs. Frumvarp um ráðstöfun makrílkvóta er aftur á móti til umfjöllunar hjá atvinnuveganefnd. Samkvæmt því frumvarpi er kvóta úthlutað til sex ára, og óheimilt að fella hann úr gildi með minna en sex ára fyrirvara.

Í þrígang vísað lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu
Undirskriftasöfnun um þjóðareign er nú sú sjöunda stærsta í Íslandssögunni. Ólafur Ragnar Grímsson forseti hefur í þrígang vísað lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar af hefur fjöldi undirskrifta einungis einu sinni verið meiri en nú hefur safnast um þjóðareign kvótans. Í janúar 2010 vísaði Ólafur Ragnar lögum um ríkisábyrgð vegna Icesave til þjóðarinnar, en 56 þúsund manns undirrituðu áskorun á forsetann um að staðfesta ekki lögin. Seinni Icesave-lögunum árið 2011 var einnig vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu, en þá söfnuðust 38 þúsund undirskriftir. Forsetinn beitti neitunarvaldi sínu fyrst í júní 2004 þegar hann neitaði að staðfesta fjölmiðlalög, en 32 þúsund manns höfðu skrifað undir áskorun þess efnis. „Því miður hefur skort samhljóminn sem þarf að vera milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli. Ekki er farsælt að varanlega verði djúp gjá milli þingvilja og þjóðarvilja. Slíka gjá þarf að brúa. Það verður best gert með því að þjóðin fái í hendur þann rétt sem henni er veittur í stjórnarskrá lýðveldisins og meti lagafrumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ sagði Ólafur Ragnar við synjun fjölmiðlalaganna. Lögin voru þó aldrei borin undir þjóðaratkvæði þar sem ríkisstjórnin dró þau til baka og setti fram nýtt frumvarp um fjölmiðla.

Fá mál henti jafn vel til þjóðaratkvæðagreiðslu og stjórn fiskveiða
Í aðdraganda síðustu forsetakosninga sagði Ólafur Ragnar að fá mál væru jafn vel til þess fallin og stjórn fiskveiða að láta þjóðina greiða atkvæði um þau. Forsetinn staðfesti árið 2013 lög um veiðigjöld, en um 35 þúsund manns skoruðu á hann að synja lögunum staðfestingar. „Með lögum um veiðigjald sem Alþingi hefur nú samþykkt er ekki verið að breyta skipan fiskveiða,“ sagði forsetinn þá. „Lögin fela því ekki í sér grundvallarbreytingar á nýtingu auðlindarinnar en kveða á um tímabundnar breytingar á greiðslum til ríkisins, sköttum vegna nýtingar.“ Þá hefði því ekki verið um að ræða sambærilega löggjöf um stjórn fiskveiða og hann hefði átt við, sem hann sagði í viðtali að væru vel til þess fallnar að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.