Sveitarfélögin verða að skaffa fleiri lóðir undir íbúðir og stjórnvöld verða að veita ungum kaupendum og leigjendum meiri aðstoð. Þetta segir Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands. Hún vill líka að húsaleigulögum verði breytt og tekið fyrir að hægt sé að tengja húsaleigu við ráðningarsamninga.
Drífa segir að Alþýðusamband Íslands hafi komist að sömu niðurstöðu og Íbúðalánasjóður og Capacent um stöðuna á húsnæðismarkaði. Það vanti um átta þúsund íbúðir og þar af um helminginn í Reykjavík. „Í byggingu eru hvað 1.400 íbúðir á þessu og næsta ári þannig að það vantar tölvuvert upp á, þetta er krísa sem við þurfum að vinna úr. Fólk sem er á leigumarkaði er sennilega það fólk sem býr við verstu kjörin í dag. Þetta er fólkið á lægstu laununum, greiðir mest í íbúðarkostnað og leigan hefur hækkað töluvert umfram það sem kaupmáttur hefur aukist eða launahækkanir.“
Aðgerða er þörf segir Drífa. „Sveitarfélögin þurfa að skaffa lóðir til að byggja á. Ríkið þarf að koma til móts við unga kaupendur. Ríkið þarf að verja leigjendur gegn taktvissum hækkunum á hverju einasta ári frá leigufélögum og leigusölum.“ Hún segir að endurskoða þurfi húsaleigulögin og aftengja húsaleigu við ráðningarsamninga. „Það eru fjölmörg verkefni sem þarf að gera, bæði til að auka leigumarkað, tryggja áfram fjármagn í almenna leiguíbúðakerfið til dæmis en líka aðstoð við fólk til að kaupa sér eignir.“