Svo virðist sem fólk hafi nýtt sér fríar strætóferðir í dag vegna yfirvofandi svifryksmengunar. Heilbrigðisfulltrúi segir mengunina ekki eins mikla og búist var við, en segir rykbindingu sennilega skýra það að einhverju leyti.

 

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sendi í gær út tilkynningu um að í dag og næstu daga mætti búast við háum styrk svifryks í borginni. Mælst var til þess að fólk notaði ekki einkabíl ef hægt væri að komast hjá því og ókeypis var í strætó. Starfsmenn borgarinnar bleyttu helstu götur í nótt til að draga úr menguninni.

„Gildin eru alls ekki eins há og þau voru í gær og um helgina eins og við bjuggumst við. En málið er að á móti kemur þá voru götur rykbundnar í nótt þannig að ég geri ráð fyrir að við séum einfaldlega að sjá meðal annars áhrifin af þeirri rykbindingu“, segir Kristín Lóa Ólafsdóttir heilbrigðisfulltrúi.

Ekki er notað vatn við rykbindinguna.

„Nei, þetta er efni sem heitir magnesíunklóríð sem er sprautað með, það er blandað í ákveðnum styrk og sprautað á göturnar, alveg yfir þversniðið, ekki bara í kanta heldur yfir miðja götu og allar reinar og slíkt.“
 

Vatn gufar fljótt upp við aðstæður eins og þessar, en magnesíumklóríðblandan getur enst í tvo til þrjá daga. Eins og veðurspáin lítur núna út, má gera ráð fyrir svokölluðum gráum dögum áfram í borginni.

„Það lítur þannig út síðast þegar ég skoðaði veðurspá þá sýnist mér eins og staðan var þá að það væri úrkoma í kortunum á föstudaginn, þannig að dagurinn á morgun, miðvikudag og fimmtudag gætu orðið gráir dagar.“

Eins og fyrr segir er ókeypis í strætó í dag með því að nýta app eða smáforrit í símanum. Guðmundur Heiðar Helgason upplýsingafulltrúi Strætó segir að svo virðist sem fólk hafi nýtt sér það.

„Já, við erum búin að skoða aðeins tölur í gær og það sem liðið er af þessum degi og það eru komnir næstum því þúsund nýir notendur inn í appið hjá okkur, það allavega gefur góð fyrirheit. Við fáum svo kannski betri upplýsingar í lok dags eða í fyrramálið hversu margir virkjuðu þennan fría miða.“

Myndskeiðið: Grímur Jón Sigurðsson

Ljósmynd: Rúnar Ingi Garðarsson