Ólafur Kr. Guðmundsson, tæknistjóri EuroRAP á Íslandi, segir sorglegt að skilti um lægri hámarkshraða á brúnni yfir Núpsvötn hafi verið fjarlægð í síðustu viku. Þrír létust þegar jeppi fór fram af brúnni í lok desember, þar á meðal ellefu mánaða gamalt barn. Hann telur að vegrið brúarinnar eigi stóran þátt í slysinu.
„Mér finnst bara sorglegt að við skulum ekki taka svona atburði eins og þarna áttu sér stað um jólin alvarlegar en þetta og skilja brúna eftir í sömu stöðu og hún var fyrir slysið,“ segir Ólafur.
Hann segir gott að það standi til að setja skiltið aftur upp. „Það þyrfti að gera við fleiri brýr heldur en þess sem eru með svipaða stöðu.“
Banaslysið er nú í rannsókn hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa. Ólafur segist hafa skoðað vegrið brúarinnar. „Það ber þess merki að það hafði töluvert með slysið að gera, hversu alvarlegt það var, að vegriðið var ekki að virka eins og það átti að gera.
„Það eru fleiri brýr á þessum umferðarmiklu vegum okkar, þar sem er mikið af ferðamönnum, sem eru með þennan lasleika, að bílar geta farið fram af. Og þegar hæðin er mikil eins og í þessu tilfelli, þá eru nokkrar brýr sem að eru þess eðlis að við megum bara ekki missa bíl fram af.“
Ólafur segist hafa rætt þessi mál oftar en einu sinni við stjórnvöld. „Jú, jú, menn eru farnir að taka mark á því, sem betur fer. En við verðum bara að drífa okkur í að koma einhverju skikki á þessar brýr okkar áður en við fáum fleiri áminningar eins og þessa sem við fengum þarna um jólin.“