„Hér eru verk sem reyna að búa til, eða birta, eða afhjúpa raunverleikann,“ segir Starkaður Sigurðarson myndlistargagnrýnandi um yfirlitssýningu á verkum Haraldar Jónssonar, Róf, á Kjarvalsstöðum. „Hann tekur einhvern smáhlut eða smástund og skoðar hvernig hægt er að gera allan heiminn úr því. Og heimurinn er meira hugmynd heldur en hlutur. Hér býr Haraldur til þennan heim.“


Starkaður Sigurðarson skrifar:

Það er stundum flókið þegar list snertir lífið. Eins og á opnun. Sýningaropnun er ekki endilega góður staður til að sjá myndlist. Fólkið í sýningarsalnum getur verið fyrir myndlistinni, truflað hana. Kannski sérstaklega listina sem Haraldur Jónsson gerir. Verk sem stundum eru eins og hvísluð, stundum eins og lítið samanbrotið blað sem einhver réttir þér, stundum einkennileg eins og hversdagsleikinn er einkennilegur, eins og að fara í sund og sjá tvo spegla spegla hvor annan beggja megin við þig og búa til göng sem fer með allar útgáfurnar af sjálfum þér einhvert annað, en bara í augnablik, áður en þú ferð ofan í pottinn. Það væri kannski auðvelt að ganga fram hjá þeim, að fatta ekki að maður sé líka í listaverki.

Það kom margt fólk á opnun yfirlitssýningar Haraldar, Róf, á Kjarvalsstöðum, af því Haraldur er áhugaverður listamaður og gerir áhugaverða list. En þetta sama fólk sparkaði líka óvart í verkin hans, gengu á útiskónum yfir listaverk sem er líka teppi, þó það hafi staðið „vinsamlegast gangið ekki á verkinu“ á miðanum sem sagði manni hvað það hét. Það tók ekki langan tíma fyrir svartklæddan starfsmann að birtast við teppið og benda fólki á það að hér væri listaverk, sjáðu, það er rautt og kringlótt og það standa á því orð. Þegar lífið traðkar inn í sýningarrýmið þá getur listin orðið undir. Ég er ekki viss um að Haraldur sé óánægður með það.

Verkin sem hann gerir benda einmitt á svona augnablik, þegar þú sérð einhvern hrinda listaverki niður af stöpli, þegar það hættir að vera bara list og byrjar að vera list og raunveruleikinn. Þegar eitthvað gerist, venjulegt eða óvenjulegt, sem þú tekur eftir. Þegar þú, sem líkami, skynjar eitthvað sem minnir þig á það að þú ert skrítin lifandi vera að búa til og brjóta reglur. Þessi verk reyna að nálgast, reyna kannski að fanga, þann raunveruleika. Hversu skrítinn raunveruleikinn er, hversu stór og fjarstæðukenndur og flókinn hann er. Hvernig hann leikur sér að okkur. Hér eru verk sem reyna að búa til, eða birta, eða afhjúpa raunveruleikann.

En er það hægt? Getur listaverk búið til raunveruleika þegar list virðist vera eins og pláneta, lítil pláneta, sem brennur upp þegar hún kemur of nálægt lífinu sjálfu, sólinni? List býr alltaf eitthvað annað til, einhverja myndlíkingu fyrir lífið, mynd af landslaginu, ekki landslagið sjálft. List er alltaf minna fyrirbæri en lífið. Eitthvað sem ætti að hverfa þegar það stendur frammi fyrir öllum raunveruleikanum, af því allt sem er búið til er að einhverju leyti falskt, og allt sem er ekki búið til er ekki hægt að fanga.

Í ljósmyndaseríunni TSOYL, eða The Story of Your Life, myndar Haraldur þessi augnablik þar sem raunveruleikinn virðist ofurraunverulegur, ofurefnislegur, þegar raunveruleikinn er til staðar. En það sem verður úr því atviki er ljósmynd; kyrr, lítil mynd sem verður metin, séð, á allt annan hátt en þetta augnablik sem er horfið. Ljósmynd sem dettur í sundur þegar hún er borin saman við það sem hún átti að grípa.

En er það tilgangurinn? Markmið, viðfangsefni, þessara verka Haraldar liggja alltaf einhvers staðar fyrir utan verkið. Ekki eins og, segjum, landslagsmálverk þar sem landslagið sjálft skiptir ekki öllu máli, heldur skiptir hluturinn, málverkið, máli. Það er það sem maður býr til, horfir á, einbeitir sér að, það er listin. Landslagsmálverkið tekur óendanlega víðáttu og gerir hana smáa, gerir eitthvað annað úr henni. Verkin hans Haraldar gera eitthvað öfugt. Hann tekur einhvern smáhlut eða smástund og skoðar hvernig hægt er að gera allan heiminn úr því. Og heimurinn er meira hugmynd heldur en hlutur. Hér býr Haraldur til þennan heim.

Eitt verkið, stillt flatt upp við vegg, eru tveir stórir hringlaga speglar sem snúa hvor að öðrum, alveg upp við hvor annan. Áhorfendurnir sjá grænu bakhlið annars spegilsins. Hvað myndast á milli þessara spegla? Kannski óendanleikinn; lengstu en líka stystu göng í heimi; allar þær þverstæður sem Haraldur birtir í verkum sínum; landslagið, myndin af landslaginu; augnablik sem endar aldrei en sem við sjáum líka aldrei; en kannski líka ekkert, myrkur, þögn; eitthvað sem er óendanlega djúpt en líka óendanlega grunnt. Eitthvað sem er list en líka eitthvað raunverulegt.

Eins og hvernig tungumálið er list en líka tól, skilvirkt og óskilvirkt. Tungumál sem Haraldur notar mikið í sínum verkum. Tungumálið er óendanlegt en líka endanlegt, skiljanlegt en líka óskiljanlegt. Það er auðvelt að skilja orðið „sorgmæddur“, en allir skilja orðið á sinn eigin hátt. Það þýðir annað prentað í rauðum stöfum á vegg í safni en þegar einhver horfir á þig og segir „það er allt í lagi að vera sorgmæddur“.

Verkin hér reyna að búa til flækjur, spyrja spurninga um raunveruleikann, athuga hvort hann sé ekki listaverk frekar. En þá spyrja þau þig líka, er það listaverkið sem er flókið eða er raunveruleikinn sem bjó til listaverkið flókinn? Erum við að skoða list eða er það bara orð sem við notum til að sjá hluti betur? Kannski eitthvað eins og hvernig spegill er listhlutur, konsepthlutur, heimspekihlutur, en líka nytjahlutur. Maður sér þessa list þá ekki endilega sem hlut eða eitthvað fallegt eða eitthvað sem er staðgengill fyrir eitthvað annað, heldur fattar maður kannski að það sem maður þreifar á er maður sjálfur, ekki endilega að gera neitt sérstakt. Að án raunveruleikans sem traðkar yfir teppið myndi engin flækja birtast.

Ramminn í kringum listina hverfur og í smá stund er enginn munur á því sem við köllum list og því sem við köllum raunveruleikann. Maður stendur ennþá á Kjarvalsstöðum en það er ekki alveg sama rýmið.