„Hún hefur skrifað fullt af smásögum þar sem hún veltir fyrir sér kynhlutverkum,“ segir Eyja Margrét Brynjarsdóttir um skrif bandaríska rithöfundarins Ursulu K. Le Guin sem lést í vikunni, 88 ára að aldri. Hún er þekktust fyrir fantasíu- og vísindaskáldskap en eftir hana liggja einnig ljóð, smásögur, barnabækur, ritgerðir og þýðingar.
Brynhildur Björnsdóttir, dagskrárgerðarkona, og Eyja M. Brynjarsdóttir, aðjúnkt í heimspeki á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, ræddu Ursulu og arfleið hennar við Önnu Gyðu Sigurgísladóttur í Lestinni. „Ég hef verið svona tíu, ellefu ára. Datt algjörlega í þennan heim og þesssar pælingar þar, sem mér finnst alveg magnaðar og svona eftir á hyggja, hafa haft mikil áhrif á mig,“ sagði Brynhildur Björnsdóttir um Galdramanninn, eða A Wizard of Earthsea en í þeirri sögu koma fram athyglisverðar hugmyndir um tungumálið. „Þar er málið að þú færð nafn þegar þú fæðist en annað nafn á fullorðinsárum en þú gefur engum þetta fullorðisnafn þitt, vegna þess að þar býr hluti af sál þinni, þar býr svo mikið vald. Það hvernig við hugsum um hlutina, hvað við köllum hluti hafi svona mikil áhrif á hvernig við umgöngumst þá og móti í rauninni eðli hluta eða fólks fyrir okkur. Þetta er hugmynd sem hefur komið aftur og aftur til mín og hefur búið með mér,“ sagði Brynhildur og bætti við: „Þetta er í rauninni þessi nýaldarlega pæling um hvaða orku þú setur inn í hluti er sú orka sem þú færð tilbaka.“
Þær Eyja Margrét Brynjarsdóttir og Brynhildur Björnsdóttir ræddu fleiri verk og sögur Ursulu K. Le Guin í þætti Lestarinnar. Heyra má hljóðbrotið í heild hér að ofan.