Kristín Steinsdóttir hlaut Fjöruverðlaunin í ár fyrir skáldsögu sína Ljósu. Í flokki fræðibóka hlaut Kristín Loftsdóttir verðlaunin fyrir bók sína Konan sem fékk spjót í höfuðið. Þankaganga, eftir Völu Þórsdóttur og Agniezku Nowak fékk verðlaunin í flokki barna- og unglingabóka.
Bókmenntaverðlaun kvenna, Fjöruverðlaunin, voru veitt í fimmta sinn á bókmenntahátíð kvenna, Góugleði, í Iðnó í dag. Fullt var út úr dyrum í salnum á annarri hæð hússins. Á undan verðlaununum voru flutt tvö erindi um Guðrúnu frá Lundi. Þrjár bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Auk verðlaunabókanna voru tilnefndar bækurnar Blóðhófnir eftir Gerði Kristnýju og Síðdegi eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur í flokki fagurbókmennta. Tilnefndar í flokki fræðibóka auk verðlaunabókarinnar voru Tónlist í leikskóla eftir Sigríði Pálmadóttur og Þóra biskups eftir Sigrúnu Pálsdóttur. Auk Þankagöngu sem hlaut verðlaunin í flokki barna- og unglingabóka voru svo tilnefndar Íslensk barnaorðabók eftir Ingrid Markan, Laufeyju Leifsdóttur og Önnu Cynthiu Leplar og Skrímsli á toppnum eftir Áslaugu Jónsdóttur og fleiri.