Hallgrímur Helgason hlaut í gær Íslensku bókmenntaverðlaunin og þakkaði mörgum fyrir í ræðu sinni, þar á meðal „litlum sætum íslenskum bókabransa“ og fjölskyldu sinni – en honum fannst hann þó sjálfur einnig eiga þakkir skildar.
Hallgrímur Helgason fékk verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Sextíu kíló af sólskini. Þetta er í annað sinn sem Hallgrímur fær verðlaunin en hann hlaut þau fyrir Höfund Íslands árið 2001.
„Það er gott að muna að [bókmenntaverðlaun] koma alltaf innan gæsalappa. Það sem einum finnst best finnst öðrum ekki og öfugt,“ sagði Hallgrímur eftir að hann hafði slegið á létta strengi með Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands. „Bókmenntir eru ekki íþróttagrein en bókmenntaverðlaun eru sport. Alveg ágæts sport, allavega í dag. Ég tek þessu því með gæsalöppum en af gleði sem er alveg gæsalappalaus.“
Hallgrímur sagði Íslendinga búa í góðu landi, „landi sem les og landi sem skrifar. Nýliðin bókavertíð sýndi okkur að krafturinn og gæðin eru enn til staðar. Og ég tek hausinn ofan fyrir öllum mínum kollegum, tilnefndum jafnt sem ótilnefndum, af því að ég er ekki með hattinn.“
Hallgrímur lýsti að því sögðu í stuttu máli tilurð bókarinnar, sem skaut fyrst rótum í skíðaferð á Siglufirði. „Höfundurinn er aldrei einn. Maður kemur heim örþreyttur eftir skíðaferð í Skarðinu og leggst í sófa í svörtu kríunni. Þá byrjar einn að lesa frásögn eftir Bólu-Hjálmar og í huga þínum kviknar skáldsaga.“ Lokahnykkurinn varð þó ekki án nokkurra útúrdúra. Í millitíðinni var Hallgrímur til að mynda beðinn um að þýða Óþelló eftir Shakespeare og fór með dóttur sinni á fótboltamót í Eyjum, þar sem titill bókarinnar kom í draumi í tjaldi. „Ég skil ekki enn þá hvað hann þýðir.“
„En fjölskyldan verður líka að þakka mér,“ bætti Hallgrímur við. „Því á milli línanna í þessari bók liggja 307 ökuferðir í Valsheimilið. Það er nánast ein á síðu og næmir lesendur geta komið auga á þessa staði í textanum því þeir skína bókstaflega af þessari einstöku andlegu upphafningu sem aðeins er finnanleg á rauðu ljósi í Reykjavík.
Hallgrímur tileinkaði að lokum verðlaunin íslenskum bókabransa. „Því að höfundurinn er aldrei einn, sem er hins vegar auðvitað alls ekki satt, því að höfundurinn er alltaf einn.“